151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[16:36]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið, en ég er bara innilega ósammála. Hér fyrr var rætt um slíkar aðgerðir og sem betur fer er búið að setja í lög að ekki megi framkvæma ónauðsynlegar og óþarfar aðgerðir á kynfærum kvenna og stúlkna, sem voru líka gerðar af trúarlegum ástæðum. Jú, þær eru alvarlegar og í mörgum tilfellum mun alvarlegri en þær aðgerðir sem verið er að gera á kynfærum drengja. En það breytir ekki öllu hvort maður beitir minna ofbeldi eða meira ofbeldi, það er ekki í lagi að segja bara að slíkar aðgerðir megi framkvæma vegna trúarástæðna. Ég get bara ekki samþykkt það.

Mér finnst það alveg með ólíkindum að við hér á Íslandi, með allt okkar réttarkerfi og jafnrétti, skulum undanskilja þetta. Ég finn ekki nein rök fyrir því, þarna er um jafnrétti drengja og stúlkna að ræða. Þau eiga að hafa sama réttinn. Og ef það er bannað að gera aðgerðir á stúlkum af trúarlegum ástæðum á það líka að gilda um drengi. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að við höfum hlutina þannig. Ég segi bara: Guð er vondur ef hann vill leyfa þetta gagnvart barni. Leyfum barninu að verða 15 ára. Leyfum því að taka ákvörðun. Gerum þetta ef nauðsyn ber til, eins og kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra, af læknisfræðilegum ástæðum. En ég hef engan skilning á því að slíkt sé gert eingöngu af trúarlegum ástæðum.