151. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2020.

mannanöfn.

161. mál
[16:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það gleður mig að heyra að hv. þingmaður er svolítið hugsi yfir þessum málum og frumvarpinu. Ég trúi því nú að það sé ekki eining innan Sjálfstæðisflokksins hvað þetta mál varðar. Ég hef rætt við marga Sjálfstæðismenn sem eru mjög undrandi yfir því hversu mikil áhersla er lögð á þetta mál hér, en það er kannski ekki það sem kemur fyrirspurn hv. þingmanns beint við. Hv. þingmaður spurði um það hvað ég telji að það sé sem vegi svo að mannanafnahefðinni og að hefðin sé svo rík. Ég byggi mína skoðun á niðurstöðu af því að hafa farið vandlega yfir þetta mál og rætt við okkar besta sérfræðing í þessum málaflokki, sem ég nefndi í ræðu minni, dr. Guðrúnu Kvaran, og átti gott samtal við hana um þetta mál. Hún er alfarið á móti þessu frumvarpi sem hún telur að muni vega að íslenskri mannanafnahefð. Gerð var ákveðin málamiðlun árið 1996, eins og ég nefndi þegar millinöfn voru leyfð. Það var kannski svolítið svar við ættarnöfnunum, að fólk fékk ekki að taka þau upp. En hver varð reynslan af því að taka upp millinöfnin? Jú, hún varð sú að nú er það bara mjög algengt að börn séu, t.d. í skólum, nefnd millinafninu einnig. Þá er föðurnafni eða móðurnafni sleppt og ég held einmitt að þetta sé klassískt dæmi um það. Verði t.d. ættarnöfnin leyfð, eins og lagt er til í þessu frumvarpi, munu föðurnöfnin og móðurnöfnin smátt og smátt hverfa úr íslenskri nafnahefð sem er okkar sérstaða og hefð sem við eigum að standa vörð um.