151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Mig langar að taka upp þráðinn þar sem ég skildi við hann síðast. Eins og kemur fram í álitsgerð Páls Hreinssonar er meginreglan sú að sem borgari má maður gera allt sem manni sýnist, svo framarlega sem það er ekki bannað í lögum. En ef stjórnvöld ætla að gera eitthvað til að skerða þessi réttindi þurfa þau að fylgja mjög stífum meginreglum stjórnsýslu og stjórnarskrár, og öðrum lögum.

Ég ætla að fara yfir hver þessi atriði eru og reyna að gera það svolítið á mannamáli. Sóttvarnayfirvöldum ber skylda til að vernda þau mannréttindi sem eru líf og heilsa. Mér sýnist tiltölulega skýrt að það er markmiðið. Það er grundvöllurinn fyrir lögmæti þeirra aðgerða sem farið er yfir í álitsgerð Páls, að til að tryggja líf og heilsu fólks megi skerða ýmis mannréttindi og borgararéttindi sem felast í stjórnarskrá. En þá verður að fylgja alls konar forskrift um að passa að allt sé gert af ýtrustu varkárni og slíkt þannig að ég fer aðeins yfir hvað það er.

Það er talað um lögmætisregluna. Á mannamáli þýðir það að stjórnvöld geta aðeins takmarkað réttindi borgaranna með íþyngjandi hætti, sem klárlega er tilfellið núna, með ákvörðunum sem byggja á heimildum í lögum og eru ekki í andstöðu við lög. Það verður að vera heimild í lögum og ákvörðunin má ekki vera andstæð lögum.

Förum aðeins yfir það. Tékklistinn er: Það er talað um formþátt, heimildaþátt og skýringarþátt, þ.e. stenst þetta stjórnarskrá? Stenst þetta lög? Það þarf að spyrja sig að því og merkja við ef svo er. Er heimild í lögum fyrir þessu? Hún þarf t.d. að vera skýr og afmörkuð og sérheimild þarf að vera fyrir íþyngjandi ákvörðunina sjálfa, t.d. sóttkví. En sérheimildir þarf líka til ef lögreglan þarf að bregðast einhvern veginn við.

Og svo um skýringarþáttinn: Er heimildin nógu skýr í ljósi áhrifanna? Þetta hefur rosalega víðtæk áhrif þannig að heimildin þarf að vera sérstaklega skýr. Ég held að það hafi komið fram, og Páll fer yfir það í álitsgerðinni, að lögmætisreglan sé að meginþætti uppfyllt. En þegar maður fer að skoða það aðeins nánar er skýrleikinn ekki alveg nægur. Í álitsgerðinni er bent á, og það er hluti af því verkefni sem forsætisráðherra fól Páli, hvað þarf að laga í lögunum. Og það þarf að laga skýrleikann í lögunum. Ég sé ekki betur en að áhersla sé lögð á að það sé gert. Margir hafa nefnt í umræðunni að kannski þurfi að flýta þeirri vinnu og það er vel.

Svo þarf að gæta að réttmæti, þ.e. að það séu málefnaleg sjónarmið fyrir því að fara í sóttvarnaaðgerðir og að þær byggi á réttarheimildum. Síðan kemur breyting, að það þurfi að breyta lögunum aðeins varðandi sóttkví vegna þess að sóttkví er frelsisskerðing. Í 4. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar segir að það verði að leyfa fólki að fara fyrir dómara vegna allra frelsisskerðinga. Ég spurði Pál út í þetta á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Hann sagði að þetta væru að sjálfsögðu sjálfstæð réttindi sem ekki þyrfti að setja í lögin þó að gott sé að gera það, skýra það. Maður hefur þessa sjálfstæðu heimild.

Ég talaði við Víði Reynisson í þríeykinu í kjölfarið, bara til að benda á það sem kom fram á þessum opna fundi sem ég nefndi. Hann sagði að þau myndu fara yfir þetta. Ég mun fylgja því eftir hvernig þetta verður gert því að þetta verður að passa upp á. Eins og kemur fram í álitsgerð Páls eru valdheimildir stjórnvalda svo gríðarlega miklar til að víkja til hliðar alls konar réttindum til að vernda líf og heilsu, mannréttindum, frelsi til athafna, frelsi til atvinnu, ferðafrelsi. Allt hefur þetta síðan áhrif á lýðheilsu, á heilsu og líf. Vegna þessarar ofboðslega víðtæku heimildar til að víkja frá mannréttindum og borgaralegum réttindum verða stjórnvöld að passa sig í öllu og fara gríðarlega varfærnislega og taka við ábendingum. Mér sýnist ganga ansi vel hjá stjórnvöldum að taka alla vega við þeim ábendingum sem ég hef heyrt að borist hafi til þeirra. Ég treysti því og trúi að í framhaldinu verði það svoleiðis að stjórnvöld haldi áfram að hafa eyrun opin hvað það varðar. Þríeykið hefur kallað eftir gagnrýninni umræðu, það þurfi hana og ekki megi þagga niður í gagnrýnisröddum því að það grafi undan samstöðu sem að sjálfsögðu er grundvölluð á vel upplýstri umræðu.

Jafnræðisreglan á mannamáli er bara að samkvæmt lögum verður að koma jafnt fram við alla. Ekki má taka einn hóp út fyrir sviga. Jú, samkvæmt Hæstarétti virðist samt sem áður hægt að gera það að miklu leyti. Í álitsgerð sinni yfirfærir Páll það yfir á ráðherra, að ráðherra geti gert það líka vegna þess að það er neyðarúrræði. Hann verður þá að gera það mjög hratt o.s.frv. Ég get ekki annað séð en að hann verði samt sem áður að fara til löggjafans og spyrja. Það er hægt að fara af stað á grundvelli neyðarreglunnar og setja alls konar reglur — en passa síðan upp á að leitað sé til löggjafans. Það verður að laga. Það verður að gera betur að svo miklu leyti sem það er hægt. Og það er hægt að ýmsu leyti. Ég trúi ekki öðru en að það verði í framhaldinu. Mér heyrist vera mjög rík krafa um það í þessari umræðu.

Svo er það meðalhófið í restina. Allt þetta sem ég er að segja er gátlisti og stjórnvöld verða að merkja við hvert einasta atriði ef þau ætla að vera með aðgerðir sem ganga á réttindi borgaranna. Á mannamáli snýst meðalhófsreglan bara um að í þágu brýnna almannahagsmuna er hægt fara af stað í aðgerðir sem skerða frelsi og mannréttindi, eins og ég hef farið yfir. En þá verða stjórnvöld að passa upp á að meðalhófs sé gætt. Hvað þýðir það? Mun úrræðið t.d. ná markmiðinu? Er búið að skilgreina markmiðið og hvert er það? Jú, það virðist vera líf og heilsa. Nær úrræðið markmiðinu? Jú. Í hinn endann takmarka þessar aðgerðir lýðheilsu. Hvort vegur þyngra? Við verðum að hafa þetta hugfast. Mér sýnist aðgerðirnar vernda líf og heilsu betur. En það er bara ekki nóg að nokkrum einstaklingum sýnist það, við verðum að sjá það.

Sumu er líka ekki hægt að svara t.d. eins og um tíðni sjálfsvíga. Ég sé að ég er að brenna út á tíma þannig að ég nefni þau bara mjög stuttlega. Krufningalæknir hefur ekki komist yfir og kemst ekki yfir það að skila endanlegum tölum fyrr en í lok ársins. Þetta vita kannski ekki margir en þetta verður allt að vera uppi á borðum og skýrt. (Forseti hringir.) Það er grundvöllurinn fyrir trausti. Ég sé ekki að traustið haldi áfram nema þetta sé enn þá skýrara (Forseti hringir.) og verði sett skiljanlegar og aðgengilegar fram fyrir almenning.