151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

skráning einstaklinga.

207. mál
[16:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra framsöguna. Í frumvarpi þessu er lagt til að bætt verði inn í lög um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019, heimild til að gefa út kerfiskennitölur fyrir andvana fædd börn sem fæðast eftir 22. viku meðgöngu. Ég fagna þessu frumvarpi sérstaklega og gleðst yfir því. Ég fagna því vegna þess að í því felst viðurkenning á að það eigi við um hin ófæddu börn og að hér sé um einstaklinga að ræða. En um leið minnir frumvarpið óþægilega á það óheillaspor sem ríkisstjórnin tók þegar nýju fóstureyðingarlögin voru samþykkt á Alþingi á síðasta ári. Framsóknarflokkurinn studdi fóstureyðingarmálið og veit ég að það voru mörgum Framsóknarmönnum mikil vonbrigði. Málið hefur ekki verið flokknum til blessunar. Það sama má segja um Sjálfstæðisflokkinn.

Barn sem fæðist andvana vegna fóstureyðingar og er 21 vikna og sex daga fær ekki kennitölu, en barn sem fæðist andvana af öðrum ástæðum og er einum degi eldra fær kennitölu. Löggjafinn telur, eftir samþykkt nýju fóstureyðingarlaganna, að sé barnið einum degi yngra en 22 vikur sé það álitið frumuklasi sem löglegt sé að eyða. Spyrja má hvort það sé á okkar færi að draga hér svo skarpa línu á milli þess að vera einstaklingur ekki einstaklingur. Ég tel svo ekki vera.

Frú forseti. Það hefði verið óskandi þegar nýju fóstureyðingarlögin voru samþykkt hér á Alþingi á síðasta ári að ríkisstjórnin hefði sýnt börnum í móðurkviði jafnmikla virðingu og í þessu frumvarpi, enda er frumvarp þetta ekki komið frá ríkisstjórninni heldur frá Þjóðskrá Íslands.