151. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2020.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Mig langaði að fjalla hér í störfum þingsins um það öfluga viðbragð sem við höfum séð í framhaldi af því ofsaveðri sem gekk yfir landið 10. og 11. desember í fyrra og margir hafa talað um sem aðventustorminn. Áhrifin af óveðrinu og hnökrum sem komu fram bitnuðu mest á norðanverðu landinu. Þetta voru þættir sem sneru að flutningskerfi raforku, dreifikerfi Rariks, fjarskiptakerfinu og varaafli. Ríkisstjórnin brást hratt við og skipaði strax starfshóp sem í miklum snarheitum skrifaði skýrslu með miklum hraða þar sem talin voru upp þau verkefni sem þegar þyrfti að fara í til að tryggja marga af helstu öryggisinnviðum þjóðfélagsins. Nú þegar hefur verið farið í mikla vinnu af hálfu Landsnets, Rariks og Neyðarlínu til að bregðast við þeim ábendingum sem komu fram í vinnu starfshópsins.

Áætlun af hálfu Rariks um að koma dreifikerfi fyrirtækisins í jörðu hefur verið flýtt um tíu ár þannig að því verkefni ljúki 2025 í stað 2035. Í dag eru rúm 65% af dreifikerfi Rariks komin í jörð.

Í tengslum við aðventustorminn komu einnig í ljós alvarlegir brestir á flutningskerfi raforku og þá helst á norðurhluta landsins. Á þessu ári er unnið af miklum krafti við lagningu Kröflulínu 3, frá Fljótsdalsstöð yfir í Kröflu. Það er hins vegar rétt að benda á í þessari stóru mynd að undirbúningsframkvæmdir vegna lagningar Hólasandslínu 3 eru komnar af stað, þ.e. frá Kröflu til Rangárvalla við Akureyri.

Nú styttist í tímanum hjá mér en rétt í lokin langar mig að minnast á þá miklu vinnu sem unnin hefur verið af Neyðarlínunni og starfsmönnum hennar í tengslum við að styrkja fjarskiptakerfi landsins og koma upp varaafli, þar sem stóra verkefnið er að styrkja mikilvæga innviði sem fjarskiptakerfi landsins svo sannarlega eru. Í öllum þessum verkefnum hefur verið vel haldið á spöðunum og fyrir það ber að þakka. Vel gert.