151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

staða sveitarfélaga vegna Covid-19.

[16:10]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Stuðningur við sveitarfélög hefur fram að þessu verið takmarkaður við þröngt skilgreind viðfangsefni, takmarkaður við ákveðin sveitarfélög sem ríkisstjórnin telur að hafi orðið harðast úti vegna áfalla í ferðaþjónustu og aðallega beinst að minni sveitarfélögum. Þar hefur sannarlega verið þörf á að bregðast við því að höggið er auðvitað ævintýralegt eins og við þekkjum öll.

Mig langaði til að benda á þá stöðu sem höfuðborgin okkar er í, því að fjárhagslegt áfall þar er þungt og kannski einna þyngst. En fjárhagsleg samskipti ríkis og borgar hafa gegnum tíðina því miður einkennst af því að ríkið fjármagnar ekki að fullu þau verkefni sem það felur borginni með lögum. Borgin er í þeirri stöðu eins og önnur sveitarfélög að svigrúmið til niðurskurðar er lítið, þar sem allar helstu þjónustuskyldur sveitarfélaganna, skólamálin og velferðarmálin, eru ákveðnar með lögum. Þetta þvingar sveitarfélögin í dag til þess að skera niður fjárfestingar þegar þeirra er sannarlega þörf og þær skipta miklu máli, bæði fyrir fyrirtækin og almenning í landinu. Það bitnar beinlínis á efnahagsaðgerðum stjórnarinnar.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar hvað varðar sveitarstjórnarstigið eru, þegar maður skoðar þau, á skjön við efnahagsráðgjöf OECD og stefnu annarra Norðurlanda. Maður veltir því fyrir sér hvernig það má eiginlega vera. Ég vona innilega að það sé ekki einhver pólitísk refskák að baki gegn borginni vegna þess að þar eru aðrir í stjórn en eru í ríkisstjórn. Stuðningur ríkisins við sveitarfélögin núna er nauðsynlegur til að viðspyrnuaðgerðir ríkisins gangi eftir, því annars mun neikvæð staða sveitarfélaganna vinna gegn áhrifum efnahagsaðgerðanna. Ég vil þess vegna hvetja ríkisstjórnina til að taka stærri skref í þágu sveitarfélaganna strax. Kynnið tímabundnar stuðningsaðgerðir, farið í skattaaðgerðir, skoðið aðgengi að lánsfé. Ég bendi á Danmörku, ég bendi á Noreg, ég bendi á Svíþjóð. Hérna gilda sömu lögmál um batann. Ég hvet stjórnarliða til að skoða þetta því að (Forseti hringir.) í þessu felst og mun felast stuðningur við grunnþjónustu sem fólkið í landinu þarf og styðst við alla daga.