151. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2020.

staða sveitarfélaga vegna Covid-19.

[16:13]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Upplegg málshefjanda, hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson, er góður grunnur að þessari umræðu, sem ég þakka fyrir og hæstv. sveitarstjórnarráðherra sömuleiðis fyrir hans innlegg. Samkvæmt þjóðhagsreikningum eru umsvif sveitarfélaganna umtalsverð, u.þ.b. 393 milljarðar árið 2019, eða u.þ.b. þriðjungur af heildarútgjöldum hins opinbera. Þetta eru 13,2% af verðmætasköpuninni á einu ári. Tekjur sveitarfélaganna voru á þessu ári 381 milljarður og hallinn í kringum 12 milljarðar. Það er síðan umhugsunarefni að árin 2017 og 2018, í uppsveiflunni, var sömuleiðis halli. Það er ákveðinn og augljós veikleiki í fjármögnun á módelinu. Tekjustofnarnir eru fastir, lögbundin þjónusta hækkar og það er innbyggður veikleiki í jöfnunarsjóðnum sem fylgir hagsveiflunni, lækkar samhliða á sama tíma og rekstrarkostnaður sveitarfélaganna eykst. Þetta þarf að skoða og það stendur til. Þetta þarf að skoða í samhengi við stöðu, stærð og styrk sveitarfélaganna því að það er óumdeilt hversu mikilvægt það er þegar bæði ríkissjóður og sveitarfélög, sem saman mynda hið opinbera, ásamt fyrirtækjum, opinberum fyrirtækjum, sinni sveiflujöfnunarhlutverki sínu af öllu afli við þessar aðstæður. Það skilja allir og mér heyrist á umræðunni hér að það samsinni allir hagfræðinni í því. Spurningin er: Hvernig nálgumst við þetta? Það verður auðvitað að gerast þannig, eins og hæstv. ráðherra fór vel yfir, að byggja verður á tölum og gögnum og taka með í reikninginn þær aðgerðir sem þegar hefur verið farið í til að mæta hagsveiflunni. Við verðum að beina stuðningi til sveitarfélaganna í samræmi við þörfina og hvar hún liggur.