151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Árið 2020 hefur svo sannarlega sýnt okkur að kerfið svokallaða getur brugðist snögglega við óvæntum aðstæðum. Okkur sem hér störfum hættir samt til að einblína á það sem á eftir að gera og gleymum öll því sem vel er gert nú þegar. Það getur verið hollt að rifja upp. Hér langar mig að beina sjónum að félagslegum aðgerðum sem farið hefur verið í í kjölfar Covid undir öflugri forystu hæstv. félags- og barnamálaráðherra en með virkri aðkomu Alþingis þar sem þingmenn hafa lagt sig fram við útfærslu mála. Stjórnvöld hafa nú þegar notað rúmlega 22 milljarða í úrræði til að viðhalda ráðningarsambandi og tryggja afkomu fólks. Þar vegur hlutabótaleiðin þyngst en alls hafa yfir 35.000 launþegar hjá 6.600 atvinnurekendum fengið greiddar hlutabætur frá því að lögin voru samþykkt en gera má ráð fyrir að 79% þeirra séu enn í ráðningarsamning við vinnuveitanda. Laun hafa verið greidd í sóttkví og tímabundin sumarstörf fyrir námsmenn orðið til hjá ríki og sveitarfélögum. Framfærendur fatlaðra og langveikra barna gátu sótt um eingreiðslu vegna aukinnar umönnunar. Í vor voru settar 386 milljónir í ýmsar félagslegar aðgerðir, svo sem Hjálparsíma 1717, unnið var með Móðurmáli, samtökum um tvítyngi, að fjarkennslu og heimanámsaðstoð og upplýsingar um Covid gerðar aðgengilegar á ýmsum tungumálum. Eftirspurn eftir þessari þjónustu reyndist mikil. Þá voru ótal margar aðgerðir sem snúa sérstaklega að vernd heimila, vinnumarkaðsmálum, tómstundastarfi og innflytjendum sem ég kemst ekki til að fara yfir, en það er ljóst að þegar allir leggjast á eitt finnast leiðir til að koma okkur í gegnum Covid. Mörg þessara verkefna og aðgerða þarf svo að þróa áfram meðan Covid stendur yfir og sumar eru komnar til að vera, einkum þær sem snúa að viðkvæmum hópum.