151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mikil og ákveðin hryggðarmynd blasir við þegar við fylgjumst núna með niðurstöðum og eftirfylgni forsetakosninganna fyrir vestan, í vöggu lýðræðisins, þegar við sjáum hve viðbrögð núverandi forseta eru aum við einföldum, skýrum, lýðræðislegum reglum. Það hvernig sá forseti umgengst lýðræðið er ákveðin viðvörun til okkar. Þótt við séum í frekar litlu ríki, teljum okkur vera stóra þjóð náttúrlega en að einhverju leyti lítið land, þá skiptir hver rödd máli og það skiptir máli hvernig við bregðumst við, hvaða skilaboð við sendum. Ég hef fylgst með því hvernig aðrar ríkisstjórnir, til að mynda sú breska, hafa verið að bregðast við þeirri stöðu sem er núna og vissulega getum við Íslendingar tekið undir það að við getum unnið með hvorum einstaklingnum sem verður forseti. En það þýðir ekki það að við gerum ekki kröfu til þess að lýðræðisreglur séu virtar.

Við sjáum nú í ríkari mæli einstaklinga komast til valda á grunni valdboðsstjórnmála. Sú mynd hefur að mínu mati birst okkur Íslendingum á síðustu fjórum árum undir stjórn Trumps og við sjáum þessa „Trumpara“ víða, líka í Evrópu. Við horfum þar til Póllands og til Ungverjalands, hvernig þeir einstaklingar og þau stjórnvöld umgangast eðlilegar lýðræðisreglur og mannréttindi ekki síst. Þá er brýnt og þýðingarmikið að íslensk stjórnvöld, hver sem þau eru hverju sinni, standi með lýðræðinu, að við stöndum með mannréttindum hvar sem er, hvenær sem er.

Þess vegna finnst mér þýðingarmikið að þau skilaboð sem við Íslendingar sendum, hvort sem er vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum eða stjórnarhátta í þeim ríkjum sem ég nefndi (Forseti hringir.) hér áðan, séu ávallt með það að leiðarljósi að lýðræði og mannréttindi verði að virða og Íslendingar muni veita stuðning og aðhald til þess að svo verði.