151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við erum nýbúin að ljúka kjördæmadögum og þar fengum við þingmenn ýmsar gagnlegar upplýsingar. Ég ætla hér að taka fyrir hluta af því sem tilheyrir heilbrigðismálum. Ég ætla nú að byrja á því að hrósa bæði stofnunum í mínu kjördæmi og starfsfólkinu og öðrum um allt land sem hafa staðið af sér afskaplega erfiða tíma. Mikilvægi hins opinbera heilbrigðiskerfis hefur svo sannarlega sýnt sig enda verið styrkt gríðarlega á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar, bæði heilsugæslan og sjúkrahúsin um tugi og hundruð milljarða. Nú hillir undir byggingu nýrrar legudeildar á Akureyri og þar er líka gert ráð fyrir tveimur nýjum heilsugæslustöðvum sem er löngu orðið tímabært. Heilbrigðisráðherra hefur líka ákveðið að tryggja Heilbrigðisstofnun Austurlands varanlegt fjármagn til að tryggja áframhaldandi þjónustu sérgreinalækna fyrir austan með samningum við Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítalann. Þetta var tilraunaverkefni sem byrjaði í fyrra með þjónustu bæklunarlækna og þvagfæraskurðlækna og sinntu þeir um 850 einstaklingum sem annars hefðu þurft að sækja þessa þjónustu annaðhvort til Reykjavíkur eða Akureyrar. Þetta er gríðarlega mikilvæg þjónusta, fyrir utan auðvitað allt vinnutapið sem við þekkjum sem höfum búið úti á landi og höfum þurft að sækja læknisþjónustu til Reykjavíkur eða Akureyrar. Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu ásamt Heilbrigðisstofnun Austurlands eru í samstarfi við hollenska sérfræðinga um jákvæða heilsu og stjórn fólks á henni. Frumkvæði, fagmennska og þróunarstarf sýnir hversu mikið og öflugt starfið er fyrir austan.

Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa líka verið stofnuð geðheilbrigðisteymi um allt land á heilsugæslustöðvunum. Við höfum verið með sérstakt fjármagn fyrir heilsueflandi móttökur og fjölgun sérnámslækna í heilsugæslu. Það er eitt af því sem skiptir miklu máli fyrir framtíðina. Við höfum opnað nýtt neyðarathvarf á Akureyri sem bætist við þau úrræði sem fyrir eru.

En, gott fólk, verkefninu lýkur aldrei, (Forseti hringir.) þ.e. að gera gott samfélag betra og því höldum við Vinstri græn ótrauð áfram.