151. löggjafarþing — 17. fundur,  5. nóv. 2020.

stórefling innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar.

42. mál
[15:05]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það eru vonbrigði að ræðutími skuli ekki vera tvöfaldur undir þessum lið. En ef ég væri landbúnaðarráðherra myndi ég hoppa hæð mína af kæti yfir því að fá svona plagg í hendur. Ef ég væri landbúnaðarráðherra þá myndi ég hugsa með mér: Af hverju í fjáranum gerði ég þetta ekki sjálfur? En nóg um það. Ég ætla að vona að hæstv. ráðherra sé þeirrar gerðar að honum sé sama hvaðan gott kemur og hann geti notað það plagg sem hér er lagt fram sem vegvísi inn í framtíðina fyrir íslenskan landbúnað.

Ég vildi nú frekar í þessari ræðu ræða landbúnaðinn frá sjónarhóli neytandans, hins almenna neytanda. Ég vildi spyrja spurningarinnar: Hvers virði er að hafa íslenskan landbúnað, þ.e. fyrir neytendur? Svarið er augljóst: Jú, við búum við það, neytendur, að fá hér landbúnaðarframleiðslu sem er unnin við bestu aðstæður, bæði menn og dýr sem koma að framleiðslunni eru vel sett. Við erum ekki með þræla við að taka upp grænmeti eins og tíðkast hér sunnar í álfunni, og það hefur komið fram í fréttum bæði seint og snemma. Við fáum þessar vörur á hagstæðu verði. Þess vegna er landbúnaður styrktur til að íslenskir erfiðismenn geti keypt sér heilnæma vöru á góðu verði. Og af hverju styrkjum við landbúnað? Jú, það er vegna þess að landbúnaður á Íslandi og víðar er líklega eina atvinnugreinin sem er að keppa við ríkisstyrktan landbúnað hinum megin hafsins.

Það er ekki heiglum hent að komast að því t.d. hvað Evrópusambandið styrkir landbúnað um vegna þess að landbúnaðarstyrkir Evrópusambandsins eru vandlega faldir í reyk og móðu. Ég hef stundum sagt það í hálfkæringi að það sé eiginlega böl íslenskra bænda að það skuli birtast í fjárlögum á hverju ári stuðningur við mjólkurbændur, x-tala, stuðningur við sauðfjárbændur, önnur tala, og reikningsglöggir menn geta reiknað út, miðað við lítraframleiðslu á mjólk og kílóframleiðslu á lambakjöti t.d., hve mikið fer í niðurgreiðslu á hvert kíló og hvern lítra og svo fara menn bölvandi í verslunina og segja: Þetta er það sem ég er að borga fyrir þessa bændur.

Herra forseti. Þetta er ekki svona einfalt. Og talandi um að erfitt sé að nálgast upphæð styrkja Evrópusambandsins til landbúnaðar þá fann ég tölur frá 2010, upp á 59 milljarða evra, sem eru samkvæmt gengi dagsins 9.676 milljarðar íslenskra kr. Ég fann líka tölu um daginn í New York Times og það voru 83 milljarðar dollara. Það eru u.þ.b. 11.300 milljarðar íslenskra kr., ef menn geta talið svo mörg núll. Það er ekki að ófyrirsynju að við styðjum við íslenskan landbúnað. Og ekki bara út af þessu heldur líka til þess að byggð haldist í öllu landinu, það er líka grundvallarspurning: Viljum við það? Kærum við okkur um það? Ég held við kærum okkur flest um það. Þá eigum við að láta hug fylgja máli og við eigum að sýna það í verki.

Það sem er kannski nýtt, að mér finnst, í þeim tillögum sem hér eru lagðar fram — síðasti hv. ræðumaður sagði að sér fyndist þetta gamaldags, hún hefur greinilega ekki lesið þetta með sömu gleraugum og ég — er að hér er t.d. talað um þróun, hér er talað um markaðsstarfsemi. Það er kannski það sem hefur setið á hakanum hér, þróun og markaðsstarfsemi. Hvers vegna? Jú, m.a. vegna þess að flokkur hv. þingmanns, sem hér talaði á undan, hefur mjög oft talað á móti því að íslenskar afurðastöðvar geti sameinast og telur það af hinu vonda. Það er margbúið að sýna fram á það að t.d. það að undanskilja mjólkuriðnaðinn á Íslandi samkeppnislögum — ég held að Ögmundur Jónasson, minn góði félagi, hafi einhvern tímann sagt það best af öllum og skýrast af öllum, að þetta skilaði 3 milljörðum á ári, milljarði fyrir bændur og 2 milljörðum fyrir neytendur. Ég hef ekki séð nokkurn mann hnekkja þessu, ekki nokkurn.

En okkur neytendur sárvantar að sjá hver fær hvað. Þegar við kaupum lambalæri úti í búð vil ég t.d. vita hver fær hvað. Ég veit að íslenskur bóndi fær í kringum 30%, minnir mig, aðeins undir því, sem er dálítið undir því sem er á sumum slóðum Evrópusambandsins út af stærðarhagkvæmni, það er mjög einfalt. Ég vil auðvitað vita þetta fyrir því. Nú þegar nýbúið er að lækka verð á nautakjöti til bænda um 5% þá hækkar það úti í búð, og ég vil vita af hverju. Hvert fór peningurinn? Fór hann til kaupmannsins? Fór hann til sláturleyfishafans sem má ekki sameinast? Hvert fór hann? Hann fór ekki til bóndans. Það eru þrjú ár síðan skilaverð á lambakjöti, þ.e. skilaverð til bónda, var lækkað um 30% með einu pennastriki, þetta var gert í ágúst ef ég man rétt. Ég hef spurt fólk: Hvernig yrði þér við ef þú fengir allt í einu launaseðil sem væri 30% lægri en í síðasta mánuði, engin skýring, fyrirvaralaust? Hvernig yrði þér við? Þessi 30% skiluðu sér ekki til neytenda. Það gerðu þau ekki og ég spurði lengi, m.a. hér í þessari pontu: Hvert fóru þessir peningar? Það vildi þannig til að hér rataði inn heiðarlegur Framsóknarmaður, varaþingmaður, sem gat látið þess getið að þessir peningar hefðu líklega farið til sláturleyfishafa. Ókei, þá vissum við það. Það var svo sem ágætt. Nú er komin stór sameining sem við vitum um og vonandi fá menn frið til að hagræða þar eins og þeir þurfa. En það breytir ekki því að það er náttúrlega með hreinum ólíkindum varðandi afurðir eins og við erum með hér að mönnum skuli ekki takast betur að markaðssetja þær. Ég er ekkert endilega að tala um að selja lambakjöt til Kína. Ég væri alveg til í að sjá markaðsátak sem beindist t.d. að stærstu mötuneytum á Íslandi, eins og mötuneyti Alþingis, þar sem lambakjöt er ekki á boðstólum á hverjum degi eða í hverri viku, eða mötuneyti Stjórnarráðsins þar sem það sama er uppi á teningnum, eða í grunnskólunum.

Við skulum gá að einu, herra forseti. Þegar við skoðum verð til neytenda þá reiknast mér til nokkuð gróflega að ef maður fer út í búð og kaupir lambalæri á beini og úrbeinar það, og tekur bein frá og kjöt til þess að nýta, þá sýnist mér að kílóverðið sé svipað og á roðlausum og beinlausum ýsuflökum út úr búð. Svo getur hver sem er komið hingað og sagt að þetta sé dýrt. Þá verð ég að spyrja: Hvort er dýrt? Er það fiskurinn sem er dýr eða eru það landbúnaðarvörurnar?

Herra forseti. Ég verð að stikla á steinum af því að tíminn er svo stuttur. Við höfum líka talað um tolla og tollmúra o.s.frv. Við erum t.d. núna, Íslendingar, þessi árin fórnarlömb tollmúra. Við erum fórnarlömb tollmúra Evrópusambandsins. Þegar síðustu samningar voru gerðir milli okkar og Evrópusambandsins vorum við að semja um kíló á móti kílói eða lítra á móti lítra. Við erum 370.000 eða þar um bil, þeir eru rúmlega 500 milljónir, fækkar aðeins nú um áramótin. Þetta er því mjög ójafn leikur og þá spyr maður: Við erum með afurð sem er að verða heimsfræg og verður frægari með hverjum deginum, sem er íslenskt skyr. Við getum ekki flutt það út nema að litlu leyti út af tollmúrum. Hvað gerum við þá? Við gerum það næstbesta, við búum til svona Coca Cola merki úr skyrinu. Coca Cola er framleitt í öllum löndum, alls staðar. Nú erum við að framleiða skyr víða um heim undir nafninu skyr með eiginleikum skyrs, eins nálægt því og við komumst. Íslenskt hugvit, íslensk landbúnaðarafurð, 1000 ára gömul, rúmlega það, sígild, holl.

Það er kappsmál fyrir neytendur að þannig sé stutt við landbúnað að hann geti vaxið og hans vegur. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég verð að koma í aðra ræðu af því að ég var ekki byrjaður á grænmetiskaflanum. Ég verð að ræða um þann misskilning sem hefur verið í gangi um íslenska grænmetisrækt, hvað grænmetisbændur hafi það æðislegt. Þeir eru búnir að missa 20% markaðshlutdeild í grænmeti á síðustu fimm árum og það finnst mér ekki góður árangur. Ég ætla að fara yfir þetta í næstu ræðu minni, herra forseti, og bið um að verða settur aftur á mælendaskrá.