151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Nú berast óhugnanlegar fréttir af stökkbreyttu afbrigði kórónuveirunnar í dönskum minkum sem talið er að hafi upprunalega borist úr fólki í minka en hafa nú borist til baka, stökkbreytt, aftur í fólk. Því sé hugsanleg hætta á að bóluefni sem eru nú í þróun gegn kórónuveirunni virki ekki á hið stökkbreytta afbrigði veirunnar. Nú eru þessi smitmál til skoðunar hjá íslenskum yfirvöldum.

Á Íslandi eru starfrækt níu minkabú en þau voru 31 talsins fyrir sex árum. Í dag eru bein störf einungis um 30 og verður það að teljast afskaplega lítið í ljósi þess fórnarkostnaðar sem hugsanlega verður af þessari ræktun. Ég fullyrði einnig, herra forseti, að ræktun minka vegna skinns þeirra er alger tímaskekkja og ekki í samræmi við nútímann þegar kemur að dýravernd. Fjölmargir fataframleiðendur eru löngu hættir að nota skinn af lifandi dýrum. Því til viðbótar hefur skinnaverð verið mun lægra en framleiðslukostnaður skinnanna og er því erfitt að sjá réttlætinguna á þessum iðnaði.

Ég legg því til að hið opinbera geri nú þeim fáu loðdýrabændum sem eftir eru kleift að hætta starfsemi sinni með styrk. Það er hægt að hugsa sér svipað fyrirkomulag og þegar ríkið greiðir bændum sem þurfa að skera niður sauðfé vegna riðu. Norðmenn hafa ákveðið að banna þessa ræktun frá og með árinu 2025 og mörg önnur lönd í Evrópu hafa nú þegar bannað þessa ræktun. Hvar er annars hæstv. umhverfisráðherra í þessari umræðu? Veit einhver afstöðu hans til þessarar ræktunar?

Herra forseti. Mér finnst að umhverfismál eigi ekki einungis að snúast um grjót og urð heldur einnig um dýr. Það hefur svo sannarlega vantað hér á landi. Hættum því loðdýrarækt á Íslandi.

Herra forseti. Pelsar eru ekki nauðsynjavara.