151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar að ræða örlítið um sparnað eða reyndar ekki sparnað. Ég vona að meðlimir fjárlaganefndar, allsherjar- og menntamálanefndar og hæstv. dómsmálaráðherra leggi við hlustir. Í sumar tók hæstv. dómsmálaráðherra þá umdeildu og, eins og komið hefur í ljós, vanhugsuðu ákvörðun um að loka fangelsinu á Akureyri. Ákvörðunin var, ráðherra til hróss, tekin til endurskoðunar og kom þá í ljós að heilmikið vantaði upp á til að þessi ákvörðun gæti gengið og það þyrfti að leggja heilmikið fjármagn til lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Þar er þó aðeins um algerar lágmarksaðgerðir að ræða, enda er nú komið í ljós, herra forseti, að þetta dugar engan veginn til og er fyrirkomulagið varðandi gæsluvarðhaldsfanga sérstaklega ekki skynsamlegt.

Það kom fram í fréttum RÚV nýverið að kostnaður lögreglu við að flytja fanga í gæsluvarðhald frá Akureyri til Reykjavíkur er áætlaður um 240.000 kr. á hvern fanga. Kostaði því sú vika, þegar flytja þurfti þrjá fanga til Reykjavíkur í gæsluvarðhald, tæpa milljón króna. Þá þurfa a.m.k. tveir lögreglumenn að fylgja hverjum fanga með tilheyrandi fjarvist af svæðinu. Þá eru þeir aðilar sem fara með rannsókn máls staðsettir á Akureyri og þurfa eðli málsins samkvæmt að fara suður til að yfirheyra, en kostnaðurinn við hverja yfirheyrslu er áætlaður um 200.000 kr. Embættið fékk hvorki viðbótarmannskap til að sinna gæsluvarðhaldsföngum né til þess að flytja þá á Hólmsheiði, sem hlýtur, herra forseti, einfaldlega að teljast óásættanlegt.

Ég spyr því, herra forseti: Hvernig getur þetta talist skynsamleg ráðstöfun á fjármunum ríkisins? Hvernig getur þetta verið sparnaður fyrir ríkið þegar upp er staðið? Er þetta ásættanleg aðstaða sem við bjóðum bæði afbrotamönnum og lögreglumönnum upp á? Þetta getur ekki verið skynsamlegt og ég skora á hæstv. dómsmálaráðherra og ekki síður hv. þingmenn í fjárlaganefnd og allsherjar- og menntamálanefnd að taka málið upp og gera betur.