151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[12:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er tvennt sem hv. þingmaður kom inn á, í fyrsta lagi námsmatið. Það verður mjög sveigjanlegt. Sums staðar eru heimapróf. Sums staðar eru staðpróf. Ég finn að skólastjórnendur og kennarar vilja halda gæðum námsins uppi en þeir eru líka sveigjanlegir, þeir átta sig auðvitað á því að þetta misseri er allt öðruvísi en áður hefur verið þannig að þeir sýna ákveðinn sveigjanleika. Eitthvað hefur þurft að fínpússa, eins og við sjáum í Háskóla Íslands. Við viljum auðvitað að bjóða upp á gæðanám en hins vegar þarf að sýna sveigjanleika. Ég vil upplýsa hv. þingmanninn um það.

Hitt málið varðar okkar viðkvæmustu hópa, þau börn og ungt fólk sem býr við fátækt. Ég hef mestar áhyggjur af þeim vegna þess að við vitum að aðstæður eru mjög mismunandi eftir heimilum. Ég hef óskað eftir því alls staðar að sérstaklega sé fylgst með þessum hópum og það sé vöktun í hverjum einasta framhaldsskóla, sem við berum ábyrgð á. Ég tel að við þurfum að gera meira. Við náum til nemendanna og ég bið þá sem ég funda með vikulega að fylgjast sérstaklega með þessum hópi. Við vitum að þetta eru nemar sem eru í meiri brotthvarfshættu en ella. Þarna tel ég að allt samfélagið verði að taka höndum saman vegna þess að við vitum jafnvel ekki af þessu, þetta er kannski falið. Þarna verður þingið og allir sem koma að málum að leggja meira á sig en minna til að ná utan um þessa stöðu.