151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[12:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Það er gott að heyra að þessi vinna sé farin af stað í ráðuneytinu og hjá Menntasjóðnum. Dálítil viðbót varðandi grunnframfærsluna: Þrátt fyrir að hún hafi verið hækkuð tvisvar á síðustu árum þá kom skýrt fram þegar við afgreiddum frumvarpið um Menntasjóð að hún er allt of lág. Í þessu atvinnuástandi má reikna með því að stór hluti stúdenta, stór hluti þeirra sem treysta á námslánakerfið, hafi ekki fengið sumarstarf og það að missa sumarhýruna þýðir fjórðungslækkun í tekjum yfir árið. Það munar um minna.

Ég hjó eftir því að ráðherra fundar reglulega með öllum skólastigum og sérstaklega nemendum á framhalds- og háskólastigi, sem er mjög jákvætt. En þess vegna sló það mig dálítið þegar ráðherrann segir að nemendur þráðu að koma í skólann. Það sem ég hef upplifað á síðustu dögum er að það er skýr krafa háskólastigsins, stúdenta, (Forseti hringir.) að geta tekið próf ekki á staðnum. Þetta fólk er búið að vera utan háskólasvæðisins (Forseti hringir.) meira og minna frá því í mars, og að stefna því öllu í staðpróf í allt of miklu magni getur ekki talist jákvætt.