151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

almenn hegningarlög.

267. mál
[15:47]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og vil kannski nefna að það er líka verið að breyta því með frumvarpinu að veita fullnægjandi rannsóknarheimildir í þessum brotum. En það er líka mikilvægt að lögreglan á í mjög góðu samstarfi við erlend lögregluyfirvöld og einkaaðila sem hafa hjálpað til við að taka niður síður eða ráðast á slíkt til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot gegn einstaklingum hérlendis. Ég veit að það er mikill vilji til að gera vel þar, bæði hjá lögregluyfirvöldum og einkaaðilum, til að koma í veg fyrir t.d. slíka dreifingu mynda.

Hér getur átt við, eins og þingmaður kemur inn á, bæði nána aðila eða algjörlega óskylda aðila í þessum brotum og mikilvægt að hafa hér inni bæði hótanir um slíkt og falsanir af því að við höfum líka séð þess dæmi að falsaðar myndir séu í dreifingu sem erfitt er að greina, það eru, eins og það er kallað á ensku, afsakið forseti, „deep fakes“, í dreifingu hérlendis af íslenskum aðilum. Það er líka áhugavert að skoða töflu sem fylgir með greinargerðinni um það hvernig þetta hefur verið heimfært hér, þetta hefur fallið undir blygðunarsemisbrot eða kynferðislega áreitni, en miðað við það óöryggi sem brotaþolar upplifa hefur ekki verið samræmi í dómaframkvæmd. Þetta hefur verið slitrótt, ef svo má segja, og mikið ósamræmi og það hefur kannski minnkað trúna á að þetta verði klárað til hins ýtrasta og sé talið jafn mikið ofbeldi og það er. Ég held að með þessu frumvarpi séum við að styrkja það og tek undir með hv. þingmanni að lögreglan verður heldur betur að vera tilbúin til að klára þessi brot eins og önnur alvarleg brot.