151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

nýsköpun í ylrækt og framleiðsla ferskra matvara til útflutnings.

[16:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það er oft talað um nýsköpun en sú umræða vill verða loðin. Það sem vantar er að bent sé á tiltekin atriði. Varðandi fiskeldið þá gætum við Íslendingar lagt áherslu á frekari tækniþróun eldis í lokuðum kerjum á landi en líka í sjó. Þar yrði hægt að hreinsa allan úrgang úr frárennsli og í laxeldinu yrði hægt að losna við laxalús en hún getur orðið mikið vandamál sem stundum þarf að nota eitur til að vinna bug á. Ísland gæti stundað eigið fiskeldi með því að nota einvörðungu innlend fóðurefni, svo sem fiskimjöl og lýsi. Þannig yrði hægt að útiloka notkun sojamjöls sem er framleitt í Suður-Ameríku þar sem verið er að brenna niður regnskóga til að rækta sojabaunir. Í þeirri ræktun er einnig notaður illgresiseyðir sem getur skilað eiturefnum í fóðrið.

Ef Ísland gæti byggt upp laxeldi í lokuðum kerjum þar sem fóður væri einvörðungu framleitt úr innlendu hráefni, sem aflað væri á fiskimiðunum í kringum landið, þá gætum við náð sérstöðu á mörkuðum með hreina afurð, umhverfisvænum íslenskum laxi eða bleikju, allt framleitt úr íslensku hráefni. Afurð sem væri framleidd með sjálfbærum hætti. Þarna yrði á ferðinni alvöru nýsköpun á sviði framleiðslu á ferskum matvælum til útflutnings. Við eigum að velja þessa leið í fiskeldinu en ekki ala norskan lax á norsku fóðri með norskum aðferðum og norskum búnaði og að hluta með norskum starfsmönnum. Slíkt er ekki nýsköpun. Það er nýlendustefna og mun aldrei geta unnið okkur inn neina sérstöðu á mörkuðum. Þar verðum við bara í samkeppni við Noreg, Færeyjar og Síle um að selja norskan eldislax.