151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

flokkun lands í dreifbýli í skipulagi.

[13:12]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin og öllum þeim þingmönnum sem lögðu sitt til umræðunnar. Í umræðunni hefur verið farið vítt og breitt yfir landnytjar, um allan heim jafnvel, og eins gróðurnytjar til sjávar. Þó að ýmislegt í umræðunni hafi farið út fyrir spurningarnar sem ég lagði upp með hefur öll umræðan skipt mjög miklu máli fyrir þennan málaflokk, skipulag landnytja.

Það var gott að heyra frá ráðherra að samstarfið sé að fara að skila leiðbeiningum um flokkun landbúnaðarlands í skipulagi og það jafnvel í árslok 2020. Það eru mjög góðar fréttir en ég velti samt fyrir mér hvort verkaskiptingin milli umhverfisráðuneytisins og atvinnuvegaráðuneytisins sé nægilega skýr. Liggur t.d. nægilega vel fyrir hvernig reglugerð atvinnuvegaráðuneytisins um landbúnaðarland og leiðbeiningar Skipulagsstofnunar tengjast og vinna saman?

Umræðan hefur sýnt að við verðum að leggja áherslu á skipulag. Við vorum öll sem tókum þátt í þessu samtali sammála um að landið sé auðlind sem við verðum að nýta skynsamlega. Flokkun og skipulag lands er umhverfis-, byggða-, landbúnaðar- og fæðuöryggismál og getur, a.m.k. óbeint, haft áhrif á ráðstöfun lands og þar með kaup á landi. Þótt skipulag geti ekki verið grunnur að kröfu um nýtingarskyldu (Forseti hringir.) getur það klárlega stutt við hana.