151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

listamannalaun.

310. mál
[14:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að við eigum að gera allt sem við getum til að styðja við útflutning og styðja við kvikmyndaframleiðslu. Ég tel ekki útilokað að hækka endurgreiðsluhlutfallið. Ég ætla ekki að svara af eða á akkúrat hér og nú. Það sem ég held að hv. þingmaður þurfi líka aðeins að horfa til er að mikil ásókn hefur verið í að taka upp kvikmyndir á Íslandi. Það tengist ekki einvörðungu því hvert endurgreiðsluhlutfallið er. Það tengist líka þróun gjaldmiðilsins. Sökum þess að hann hefur verið að veikjast hefur ásókn í að taka kvikmyndir á Íslandi aukist verulega. En mér finnst við alltaf eiga að leita allra leiða til að auka framleiðslu á kvikmyndum og því sem tengist menningarlífinu því að það skilar sér margfalt, eins og kom fram í framsögu hv. þingmanns. Í nýrri kvikmyndastefnu, þar sem við erum að kynna nýja hagvísa sem hafa ekki verið eins aðgengilegir áður, sýnum við fram á hversu arðbært það er að auka kvikmyndaframleiðslu á Íslandi og það er það svo sannarlega. Það eru mörg afleidd störf sem tengjast henni. Einnig kom fram í ræðu hv. þingmanns að það séu mjög margir sem heimsæki landið vegna þess að kvikmyndir eða þættir séu teknir upp á Íslandi. Afleiddar gjaldeyristekjur af slíku eru því mjög umfangsmiklar.