151. löggjafarþing — 23. fundur,  19. nóv. 2020.

listamannalaun.

310. mál
[14:59]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra segir að hún sé til í að gera allt sem þarf til að styðja við kvikmynda- og sjónvarpsgerð. Sömuleiðis teflir hún fram rökum sem ég er sammála, þetta er arðbært og það eru margvísleg margfeldisáhrif af því að fá hingað fjölbreytileg verkefni á sviði kvikmynda- og sjónvarpsgerðar. Þess vegna átta ég mig ekki á því af hverju hæstv. ráðherra og Framsóknarflokkurinn eru ekki tilbúin að taka það skref að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 25% í 35%. Það er það sem geirinn hefur verið að kalla eftir númer eitt, tvö og þrjú. Kvikmynda- og sjónvarpsgeirinn hefur sagt að hann vilji hjálpa okkur. Gerið þetta. Af hverju gerum við þetta ekki fyrst þetta er svona arðbært? Ég veit að hæstv. ráðherra veit að þetta er arðbært og þetta er skynsamlegt. Við fengjum meiri peninga í kassann en færu úr honum, við fengjum fleiri störf, fengjum meiri list, fengjum umsvif, fengjum skatttekjur. Þetta er hugmynd sem slær í gegn alls staðar en strandar á viljaleysi ríkisstjórnarinnar um að hækka endurgreiðsluhlutfallið. Við getum gert það eftir hádegið. Þetta er svo einföld aðgerð, að fara úr 25% yfir í 35%. Þetta eru engin geimvísindi. Af hverju gerum við það ekki? Af hverju gerum við það ekki núna? Núna vantar okkur umsvifin og störfin og skatttekjurnar.

Ef ráðherra er sammála mér hlýtur málið að stranda einhvers staðar annars staðar. Er það hjá fjármálaráðuneytinu? Er það hjá Vinstri grænum? Ég veit það ekki en ég skil ekki af hverju við tökum ekki þessa ákvörðun. Er það hæstv. nýsköpunarráðherra sem stoppar þetta? Hver er vandinn? Af hverju gerum við þetta ekki fyrst þetta er svona frábær hugmynd? Þessi hugmynd er frábær. (Forseti hringir.) Að breyta einni tölu, 25% í 35%, myndi laða strax að fjölbreytileg, skemmtileg og arðbær verkefni. Ég veit að hæstv. ráðherra er sammála.