151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[19:50]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég var eiginlega búinn að svara þeim fyrirspurnum sem ég náði ekki að svara í andsvörum við upphafsræðu minni. Mig langaði bara rétt að koma upp til að ræða næsta verkefni, þ.e. að brúa bilið. Það er auðvitað rétt sem hv. þingmaður kemur hér inn á í sambandi við það. Við létum skoða, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, hver staðan er varðandi þessi mál á landsvísu. Staðan er sú að meiri hluti sveitarfélaga er að bjóða upp á leikskóla frá 12 mánaða aldri eða stefnir að því. En minni hluti íbúanna býr í sveitarfélögum sem bjóða upp á slíkt. Það segir okkur að stóru sveitarfélögin ná ekki að teygja sig í þetta. Við höfum verið í samtali við þau og það náðist einfaldlega ekki við vinnslu þessa frumvarps að brúa það. Það verður næsta verkefni að brúa það. Ríkið er að gera vel núna með því að lengja í 12 mánuði og teygja sig þarna í áttina og það dugar gagnvart ákveðnum sveitarfélögum. En betur má ef duga skal gagnvart öðrum og þar þurfa sveitarfélögin að sjálfsögðu líka að koma að borðinu. Það er samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga hvernig við náum þessu, ég er sammála hv. þingmanni með það. Ég læt þetta duga í bili.