151. löggjafarþing — 27. fundur,  27. nóv. 2020.

kjaramál flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands.

351. mál
[15:54]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var tekin ákvörðun um að fresta kaupum á nýju þyrlunum vegna ástandsins í samfélaginu en leigja í staðinn jafngóðar þyrlur í óákveðinn tíma, til eins árs til að byrja með. Það hefur ekki haft nein áhrif á stöðu Landhelgisgæslunnar í dag. Hún hefur þrjár þyrlur, þar af tvær fullbúnar og afar góðar og sú þriðja að koma um áramótin. Það kalla ég að sinna þessari starfsemi vel, að vera komin á þann stað um áramótin að hafa hér þrjár fullbúnar, afar góðar og ekki neinar bráðabirgðaleiguvélar eins og hv. þingmaður kom inn á heldur jafngóðar vélar og við hefðum keypt ef við hefðum ekki séð fyrir þá efnahagskreppu sem nú ríkir. Þess vegna frestuðum við því um ár sem ég tel að hafi verið skynsamleg ráðstöfun. Það hefur farið fram greining á skipaþörf Gæslunnar og hvaða fjárfesting þurfi að koma næst og sú vinna er á lokametrunum. Við höfum tvö fullbúin skip sem hafa farið á sjó, hvort á sínum enda landsins, til að gæta öryggis eins og mögulegt er. Svo tekur auðvitað tíma að kaupa þyrlur. Það hefði ekki breytt neinu varðandi núverandi ástand. Og nýjar þyrlur þurfa líka viðhald.