151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[18:07]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það er ekki hægt að skilja mig á þann veg að það sé hæstv. fjármálaráðherra Íslands sem hafi einhvern veginn verið að undanskilja verktakagreiðslur. Mér fannst reyndar óheiðarlega vegið að honum í umræðunni hvað það snertir. Fjármálaráðherra hefur verið mjög skilningsríkur á þessar aðgerðir og stutt þær enda væri þetta annars ekki komið inn hér, ekki frekar en ef einhver annar flokkur hefði ekki stutt þær. Hins vegar unnum við þetta frumvarp í samvinnu á milli ráðuneyta og það var bent á það sjónarmið í fjármálaráðuneytinu að hvatt hefur verið til þess að íþróttafélög greiddu meiri launagreiðslur og minni verktakagreiðslur. Það hefur verið samstarf um það í einhver ár að hvetja til þess að færa sig yfir í það. Íþróttahreyfingin sjálf hefur fyrirkomulag sem kallast Fyrirmyndarfélag ÍSÍ og þar er líka hvatt til þess að greiddar séu launagreiðslur frekar en verktakagreiðslur.

Á þeim grunni og líka á þeim grunni að Vinnumálastofnun er að sýsla með launagreiðslur, er að vinna með launamönnum en ekki með verktökum, var ákveðið að gera breytingar, að leggja frumvarpið fram með þeim hætti hér að það fjármagn sem ætlað væri til verktakagreiðslna færi í sérstakan sjóð sem greitt væri út úr af hálfu menntamálaráðherra. Hér næðum við utan um launagreiðslurnar. Ég geri ráð fyrir því að þegar óskað verður eftir fjárheimild frá þinginu til að veita þá fjármuni til menntamálaráðherra sem veitir þá þaðan til íþróttahreyfingarinnar verði gerð grein fyrir því hvaða skilyrði fylgja því fé.

Ég benti líka á að það hefur verið umræða um hvort skynsamlegt sé að gera breytingar á frumvarpinu hvað þetta snertir. Ég sagði við nefndarmenn, sem voru að spyrja að því, að ég héti aðstoð í nefndinni við að skoða hverjar þær breytingar sem þingið vill gera á málinu. Það á við um öll mál sem koma hingað inn til þingsins og ég hef lagt mig í líma (Forseti hringir.) við að vinna með þinginu að breytingum. (Forseti hringir.) Þess vegna hafa mörg mál frá mér tekið mjög miklum breytingum (Forseti hringir.) og það er bara jákvætt því að það er hluti af lagasetningarferlinu hér á landi.