151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[18:43]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Hann hefur rætt um það hér að ekki sé hægt að fresta þessu útboði vegna þess að þetta sé samningur og við séum samningsbundin og samninga beri að halda, og ég tek alveg undir það. En nú eru þær aðstæður sem landbúnaðurinn er í, og einnig landbúnaður í Evrópusambandinu, algjörlega óviðráðanlegar og skullu nánast á á einni nóttu. Þá spyr maður sig: Hefur það verið rætt við Evrópusambandið, hefur sú hugmynd verið reifuð, að nauðsynlegt sé fyrir íslenska landbúnaðarframleiðslu að fresta þessu útboði vegna þeirra aðstæðna sem landbúnaðurinn er í, sem að stórum hluta eru til komnar vegna veirufaraldursins? Hefði ekki verið eðlilegt að ræða það við Evrópusambandið að það væri ákaflega mikilvægt af hálfu Íslands að við fengjum að fresta þessu útboði? Þá er ekki um neitt samningsbrot að ræða heldur bara samningsatriði milli aðila um að vegna þessa ástands sé það heimilt. Ég bið hæstv. ráðherra að fara aðeins yfir það.

Mig langar líka að spyrja varðandi samninginn almennt: Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar að það hefði átt að segja þessum samningi upp vegna brostinna forsendna og hef flutt tillögu þess efnis, vegna þess að Bretland er að ganga úr Evrópusambandinu. Ég held að loksins séu íslensk stjórnvöld að átta sig á því að það sé kannski eitthvað sem vert væri að skoða og að það sé sú leið sem ætti að fara. En er það ekki mikill galli á samningnum sem er í gildi, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að ekki skuli vera neitt svigrúm innan hans til að taka á svona aðstæðum þegar þær koma upp?