151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[17:02]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel fulla ástæðu fyrir því að taka þetta mál aftur inn í nefnd á milli umræðna af því að það er greinilega verið að bera saman ólíka hluti auk þess sem menn hafa ekki greinilega upplýsingar um hvernig þetta er í dag. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu. Auðvitað snýst þetta ekki um frumvarpið í sjálfu sér heldur löggjöfina eins og hún er, eins galin og hún er í raun og veru. Ég tek eftir því í greinargerðinni að þar segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að um töluvert inngrip sé að ræða telja flutningsmenn nauðsynlegt að grípa til slíkra aðgerða til að ákvæði um kynjahlutföll í stjórnum samvinnufélaga […] nái markmiði sínu. Jafnframt sé löggjafanum heimilt, þrátt fyrir eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, að setja athafnafrelsi nauðsynlegar skorður séu fyrir því eðlilegar og málefnalegar ástæður.“

Stjórnarskráin segir ekkert um eðlilegar og málefnalegar ástæður. Það verður að vera almenningsþörf, almannahagsmunir, til að rýra eignarrétt með þessum hætti. (Forseti hringir.) Við getum alltaf fundið málefnalegar ástæður.