151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[18:09]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir þetta andsvar. Stundum getur maður verið virkilega þakklátur fyrir stjórnarskrá Íslands. Þetta er eitt af þeim málum þar sem maður þakkar fyrir það að hún skuli vera til staðar og unnt sé að vísa í hana þegar mikið liggur við og þegar maður telur að menn séu að renna svolítið á svellinu, eins og sérstaklega í þessu máli, þegar menn renna illilega á svellinu, að mínu mati, og ganga mjög langt inn á eignarrétt manna til að ná einhverjum pólitískum markmiðum, eins og því göfuga markmiði að reyna að ná fram meira jafnrétti milli kynjanna tveggja. Þá vaða menn áfram, þeir sjást ekki fyrir í vegferðinni. Menn blindast og vaða yfir allt. Svo kemur að því að þeir rekast á vegg. Ég tel að þarna sé nú einhvers konar veggur fyrir hendi. Menn hafa gengið of langt. Menn ætla sem sagt að brjóta þarna eignarrétt manna á bak aftur til að koma þessu markmiði áfram. Ég las upp úr umsögn Kvenréttindafélags Íslands og sýnist mér mikið hafa áunnist. Þetta er yfir þriðjungur í flestum þessum stóru félögum og hátt í 40% í þeim allra stærstu þannig að það hefur greinilega mikið áunnist.

Jafnréttisbaráttan. Hv. þingmaður spurði nú mest mestmegnis um hana. Ég verð líklega að reyna að svara því í næsta andsvari.