151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[18:22]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég er mjög hugsi yfir þessu. Þó er ég miklu meira hugsi yfir því að svona ákvæði skuli hafa verið sett í lögin á sínum tíma. Þá var ég ekki á staðnum til að berjast gegn þessu og ég hef áhyggjur af því hvað þingmenn almennt, og kannski almenningur líka, ég veit það ekki, eru tilbúnir til að ganga langt gegn helstu mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar í því skyni að ná einhverjum pólitískum markmiðum. Þau markmið geta verið góð, skynsamleg, jafnvel notið talsverðs fylgis, en við getum ekki gert hvað sem er. Til þess eru ákvæði stjórnarskrárinnar að setja löggjafanum mörk hverju sinni í því að ná pólitískum markmiðum sínum. Í mínum huga er það ákvæði sem verndar eignarréttinn einna mikilvægast í stjórnarskránni. Ástæðan fyrir því að ég tel það ákvæði mikilvægara en flest önnur ákvæði er sú að það er forsenda fyrir framþróun samfélagsins, forsenda fyrir velferð, forsenda fyrir atvinnurekstri. Mér finnst, eins og meiri hlutinn segir svo sem sjálfur í greinargerð með frumvarpinu, að hér sé um töluvert inngrip að ræða. Síðan er það að vísu ekki rætt neitt meira. Það hefur greinilega ekki farið fram nein umræða um það í nefndinni hvort löggjöf af þessu tagi, svo sem löggjöfin í heild, að skylda eigendur til að velja fólk í stjórnir með þessum hætti, sé of mikið inngrip og standist raunverulega stjórnarskrá. Ég sakna þess mjög.

Ég hef margoft sagt, og ég stend við það, að mér finnist menn ganga allt of langt þegar þeir meta hvað eru almannaþarfir eða almannahagsmunir, ég tala nú ekki um ríkir almannahagsmunir, að hægt sé að víkja þeim víkja ákvæðum til hliðar vegna þess að einhver pólitískur meiri hluti hverju sinni telur það æskilegt, gott og skynsamlegt. Þegar svo er eru svona ákvæði auðvitað að tapa allri merkingu sinni. Við gætum alveg eins sleppt þeim ef við getum í hvert sinn, á grundvelli einhvers pólitísks meiri hluta, vikið þeim til hliðar. Ég er mjög hugsi yfir þessu vegna þess að þarna er gengið óvenjulangt. Það er auðvitað tilefni til miklu stærri umræðu, herra forseti, og bara umræðu um virðingu fyrir stjórnarskránni almennt. En sá tími er kannski ekki fyrir hendi núna.

Það er margt annað sem truflar mig við þetta frumvarp ef við látum þessari umræðu lokið. Í greinargerðinni, til þess að réttlæta þessa breytingu, þessa viðbót við lögin, þessi viðurlög, er vísað til laganna í Noregi sem menn gleyma að nefna að eru allt öðruvísi en lögin hér. Ef ég man þetta nákvæmlega taka lögin um jöfn kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja eingöngu til almenningshlutafélaga sem eru skráð á markaði. Við fórum auðvitað aðra leið. Við létum þetta gilda um öll félög sem hefðu 50 menn eða fleiri á launaskrá. Síðan er í greinargerðinni borinn saman árangurinn í Noregi og árangurinn á Íslandi og sagt að það sé ástæðan fyrir þessu viðurlagaákvæði að við höfum ekki náð sama árangri og Noregur. Það er bara rangt. Ég held ég geti algerlega fullyrt það að í dag eru konur 40% í stjórnum hlutafélaga sem skráð er á markaði. En hér er samanburðurinn tekinn og sagt: Þeir hafa náð þessum árangri í Noregi en við höfum ekki náð þessum árangri, og því er haldið fram að árangurinn í Noregi sé bein afleiðing kynjakvótans og að við höfum ekki náð sama árangri vegna þess að við séum einhvers staðar upp undir 30%. Það er í besta falli óheiðarlegt að gera þetta svona, í versta falli bara hrein blekking.

Við erum kannski að tala um félag sem einhverjir einstaklingar stofna, segjum að þrjár konur eða þrír karlar stofni félag og eigi það að jöfnum hlut. Síðan vex félagið og nær 50 starfsmönnum. Allt fé og allar eignir þessara þriggja aðila, af hvoru kyninu sem þeir eru, eru undir í félaginu. Menn leggja aleigu sína og allt undir í þennan rekstur. Svo allt í einu kemur upp sú staða að eitt þeirra getur ekki verið í stjórn út af lögum af þessu tagi, og menn vísa í jafnrétti. Í mínum huga hefur þetta ekkert með jafnrétti að gera, bara ekki neitt. Ef kynjunum væri mismunað í lögum um stjórn hlutafélaga, ef við segðum að samkvæmt lögum þyrftu 70% í stjórn að vera karlar, þá gætum við verið að tala um jafnrétti, það væri brot á jafnræði að skylda fyrirtæki til að hafa fleiri af öðru kyninu en hinu. En það hefur ekkert með jafnrétti að gera að það séu jafn margir af hvoru kyni alls staðar. Það er kannski stóri misskilningurinn í allri þessari jafnréttisumræðu í dag, hún snýst ekki um rétt fólks heldur um einhverja útkomu á hverjum stað.

Ég get alveg verið sammála því að það er fínt markmið að hlutfall kynjanna sé sem jafnast víðast. Ég myndi ekki bara vilja vera með körlum, það er alveg ömurlegt. En ég get ekki leyft mér það sem hluti af löggjafarvaldinu, með þessa stjórnarskrá í höndunum, að vera með inngrip í eignarrétt manna með þessum hætti, að skylda fyrirtæki til að hafa ákveðið hlutfall af hvoru kyni, og það hefur ekkert með jafnrétti að gera. Þetta er auðvitað bara vandamálið í hnotskurn. En stóra vandamálið er, og menn gleyma því oft í allri umræðu, að kynin eru ólík að mörgu leyti. Það er auðvitað ekki algilt, en áhugasvið þeirra eru ólík, það er bara munur á því hvar þau vilja mynda sér starfsframa og í hvaða greinum. Við getum verið í þeirri stöðu að úr færri einstaklingum sé að moða af öðru hvoru kyninu eftir því hvers konar rekstur er um að ræða, einstaklingum sem hafa þekkingu og reynslu af slíkum rekstri. Löggjafinn er auðvitað ekki að hlusta á það. Þetta er auðvitað ósköp venjuleg pólitísk rétthugsun sem er allt í lagi, hún er ekki refsiverð og eina sem ég legg áherslu á í þessu sambandi er að við séum ekki að ganga á stjórnarskrárvarin réttindi manna, hvort sem það er eignarréttinn eða önnur réttindi almennt, nema það séu þá einhverjir sérstakir ríkir almannahagsmunir sem liggi að baki, eða einhver almenningsþörf. Það á auðvitað ekki við í þessu tilviki. Það hefur ekkert með það að gera. Það mun ekki breyta neinu fyrir almenning í sjálfu sér hvernig staðan er í einstökum fyrirtækjum varðandi stjórnun.

Þetta kann að vera gott markmið og ég gæti skilið að við myndum beita einhverri hvatningu til fyrirtækjanna, jafnvel einhverjum ívilnunum, vottunum o.s.frv. Það gæti auðvitað verið bisness fyrir fyrirtækin að geta sýnt fram á að þau passi upp á að jafn margir af hvoru kyni séu í stjórn. Ég tala nú ekki um þegar kynin eru orðin fleiri, að hægt sé að hafa enn meira jafnrétti í þeim málefnum. Það getur bara verið gott fyrir viðskiptin, verið viðskiptalegs eðlis. Nei, við látum það ekki duga. Við ætlum að beita þvingunarúrræðum sem stjórnvöld ein hafa, beita þvingunum og refsingum til að ná einhverjum markmiðum. Sú hugsun er bara hættuleg. Við eigum aldrei að ná pólitískum markmiðum með því að beita refsingum, ég tala nú ekki um þegar það varðar mikilvæg stjórnarskrárvarin réttindi manna. Mér finnst það út af fyrir sig merkilegt að stjórnmálamönnum skuli detta það í hug, og ég er mjög áhyggjufullur yfir því. Það snýst ekki bara um þetta mál, það snýst um svo margt annað. Þessi þróun er á fleygiferð, menn víla ekki fyrir sér að beita þvingunarvaldi sem ríkið eitt hefur til að ná slíkum markmiðum. Ég held að það sé full ástæða fyrir okkur að staldra við og velta því fyrir okkur af hverju þetta er þróunin.

Við erum að glíma við löggjöf. Við erum raunverulega að bæta refsiákvæðum við í þessa löggjöf og bæta í varðandi ákvæði sem engin önnur vestræn ríki eru með í sinni löggjöf, engin. Af hverju skyldi það nú vera? Af hverju eru enginn vestræn, frjáls lýðræðisríki með svona löggjöf eins og við? Það er auðvitað af ákveðinni ástæðu. Það er vegna þess að þar virða menn eignarréttinn. Þeir eru ekki í pólitískri sýndarmennsku, um að þeir séu bestir í heimi varðandi jafnréttismál. Það er enginn svona vitlaus eins og við. Þau ríki beita allt öðrum aðferðum til að reyna að jafna, þau beita hvatningu, vottun o.s.frv. Næstir okkur koma Norðmenn sem eru með svona skyldu, en hún er hins vegar miklu eðlilegri vegna þess að hún varðar almenningshlutafélög á markaði. Maður getur miklu betur skilið viðurlagaákvæði eða skyldur slíkra félaga en almennra félaga í eigu einhvers fólks hér, fjölskyldufyrirtæki o.s.frv. Það dettur engri annarri þjóð þetta í hug og svo bara montum við okkur af þessu í staðinn fyrir að við ættum að skammast okkar. Við erum í eilífu monti, af því að við erum svo dugleg að beita refsingum og viðurlögum til að ná pólitískum markmiðum. Við erum gjörsamlega komin út í móa í þessu sem og svo mörgu öðru af því að við höldum að við séum svo æðisleg. Við erum svo flott, við erum svo jafnréttissinnuð, við erum algjört æði. Við erum í raun bara hallærisleg, lummó, eins og sagt var í gamla daga. Það er hægt að ná þessum markmiðum með allt öðrum hætti og þau eru á fleygiferð. Nei, við þurfum að refsa. Við þurfum helst að stinga einhverjum inn, gera fyrirtækin gjaldþrota með sektum af því að við erum svo flott, við erum svo réttsýn, við erum svo æðisleg. Við erum eiginlega frekar fávitar, það er nú bara heila málið. Við erum búin að kæfa okkur svo í pólitískri rétthugsun að við erum löngu hætt að ná andanum.

Snúum þessari þróun við, hendum þessu frumvarpi út og segjum: Heyrðu, við náum þessum markmiðum með allt öðrum hætti. Það er ekkert mál. Þau hafa verið á fleygiferð, þetta hefur breyst. Það er öðruvísi hugsun. Gott og vel, það er mjög fínt. En að beita ofbeldi með þessum hætti, þvingunarúrræðum sem ríkisvaldið eitt hefur, finnst mér fyrir neðan allar hellur og ég mun aldrei fyrir mitt litla líf samþykkja það, sama hve skynsamleg og góð mér fyndust pólitísku markmiðin, aldrei. Ég mun aldrei ganga á eignarrétt fólks með þessum hætti vegna þess að ég virði hann, líka þótt mér finnist fólk fara illa með hann. Það er svo mikilvægt að virða þessi ákvæði. Ég veit að fólk gerir vitleysu. Þetta er alveg eins og með atvinnufrelsisákvæðið. Við göngum mjög langt í að takmarka það, jafnvel út af einhverjum siðlegum viðmiðum eða markmiðum eða einhverju sem okkur finnst ekki góð hegðun, af því menn hegða sér illa. Við göngum alltaf lengra og lengra. Við getum með þessu áframhaldi ekki einu sinni kallað okkur mannréttindasamfélag eða mannréttindaríki. Við gleymum okkur alltaf í þessu af því að markmiðin eru alltaf svo góð.

Hæstv. forseti. Við erum bara algjörlega ömurleg.