151. löggjafarþing — 32. fundur,  7. des. 2020.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[19:11]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðum mikla áherslu á að þessi efnislegu gögn kæmu fram, og við myndum fá frekari vinnu og greiningar á því hver staðan væri hér og erlendis. Ég nefni sem dæmi það atriði sem hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna hér í dag varðandi fyrirkomulagið í Noregi. Við þurfum að hafa þetta staðfest, það sem kom fram í umræðunni, hvort þetta eigi bara við um almenningshlutafélög í Noregi, norska hlutabréfamarkaðinn. Er það þá staðan í Noregi sem er verið að bera saman við öll fyrirtæki hér, sem eru 394, ef ég man rétt, eins og kom fram í tölvupósti sem barst rétt fyrir þessa umræðu? Það kemur fram í þeirri umræðu að af þessum 394 fyrirtækjum á Íslandi sem eru með 50 starfsmenn eða fleiri hafa 66 ekki náð þeim markmiðum sem menn telja þarna undir, það eru 15% þessara fyrirtækja. Þetta kerfi hefur í eðli sínu verið að virka. Við erum að ná þessum markmiðum eins og kom fram fyrr í umræðunni. Þetta er að hafast. Það hefur verið mikill þrýstingur á að koma þessu máli áfram, það er öllum ljóst. En þetta er ástæðan fyrir því að við erum með fyrirvara á málinu, svo að ég tali fyrir sjálfan mig. Við erum að kalla eftir þessum grunnupplýsingum, viljum fá betri skýringar á þessu samhengi hlutanna. Málið er því tekið aftur inn í nefndina í framhaldi af því.