151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú á haustmánuðum var staðfest riðuveiki á nokkrum sauðfjárbúum í Skagafirði. Við finnum öll til með þeim bændum sem lenda í áföllum sem þessum, áfallið er bæði tilfinningalegt og fjárhagslegt. Skera þarf niður allt fé þar sem riða hefur komið upp og má því segja að fótunum sé kippt undan ævistarfi þeirra bænda sem lenda í þessum hremmingum. Tilfinningalegt tjón bænda verður seint bætt en ríkið þarf að stíga inn í og reyna að koma til móts við þá bændur sem hafa misst allt sitt fé vegna riðu. Áætlað er að heildarbætur vegna þessa tjóns muni nema um 200 millj. kr.

Þegar þessi alvarlega staða kom upp í Skagafirði innti ég landbúnaðarráðherra eftir svörum um hvort búið væri að móta stefnu varðandi rannsóknir á fyrirbyggjandi ráðstöfunum vegna riðuveiki í sauðfé hér á landi. Ánægjulegt var að heyra að vinna væri hafin í ráðuneytinu í samvinnu við Matvælastofnun við að meta og endurskoða reglur og stjórnsýslu. Ég fagna því að rannsóknir á fyrirbyggjandi ráðstöfunum gegn riðuveiki séu hluti af þeim þáttum sem eru til skoðunar og sérstaklega verði tekið til skoðunar hvort til staðar séu aðrar aðgerðir sem feli í sér minna inngrip, röskun og kostnað en þær aðgerðir sem gripið hefur verið til undanfarna áratugi þegar riðuveiki hefur greinst í fé. Síðan þarf að styrkja og lengja eftirlit með urðunarstöðum. Í ljós hefur komið að þessi fjandi getur legið í laumi í marga áratugi.

Virðulegi forseti. Sú staða sem þarna kom upp kallar á skoðun á því hvort nauðsynlegt sé að tryggja að fyrir hendi séu innviðir sem gera þar til bærum yfirvöldum kleift að fara eftir reglum við eyðingu á úrgangi sem þessum. Nauðsynlegt er að hafa viðbragðsáætlanir á hreinu vegna alvarlegra búfjársjúkdóma. Við vitum aldrei hvar eða hvenær þeir banka upp á.