151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar .

361. mál
[14:17]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en ég vil taka undir með félögum mínum í hv. velferðarnefnd og sérstaklega hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni. Það er ánægjulegt að koma hér á eftir honum og geta fagnað þessu. Hann er mikill baráttumaður fyrir kjörum örorkulífeyrisþega og hefur oft verið í þessum stól og nú gat hann glaðst með okkur og við erum auðvitað öll mjög sátt við málið. Það hefur verið góður friður og góður andi um þetta mál eins og flest mál. Hér er eingreiðsla upp á 50.000 kr., sem fram hefur komið að er mjög mikilvægt að afgreiða fyrir jól svo að hún nýtist þeim sem þurfa mest á henni að halda og síðan varanleg hækkun upp á 19.700 kr. á mánuði, það er gríðarlega mikilvægt að ná þeim áfanga, 6,1% hækkun. Við gleðjumst yfir því og vonandi eiga fleiri gleðileg jól.