151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[16:34]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og þessar spurningar. Miðað við stærð og umfang verkefnisins og hvað þetta er fjölbreytt er mjög erfitt að sjá að hægt væri að ná algjörri sátt um málið. Hvort hægt sé að ná nægilegri sátt er kannski annað mál. Ég held að í frumvarpinu sé að mörgu leyti búið að koma til móts við stóru leikendurna í að ná þessari sátt, sem eru þá sveitarfélögin, núverandi nytjarétthafar og annað slíkt. Það sem ég held að yrði lykillinn að sáttinni, hvort það sé of mikið fyrir einhverja aðila veit ég ekki, tengist umfanginu. Umfang garðsins getur alveg verið ákveðið en það fer þá eftir friðlýsingartegundum og slíkum atriðum. Í frumvarpinu er farið yfir hvort það sé jaðarsvæði fyrir virkjanirnar. Þá er spurning hvort við getum kannski haft þetta í þrennu lagi, að núverandi friðlýst svæði fari undir þjóðgarðinn og þess vegna stærra svæði, en að núverandi fyrirkomulag varðandi þjóðlendur og annað slíkt gildi þar. Þannig að það er margt í þessu. Þegar við fáum þessa miklu og góðu umræðu sem er um málið núna þá veit maður aldrei hvaða lausnir koma upp úr því. Ég ætla ekki að útiloka neitt fyrir fram en tek undir að verkefnið er stórt og mikið tilfinningamál.