151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Mig langar að ræða aðeins um núvitund í stjórnmálum. Í upphafi síðasta árs fengum við heimsókn hingað í þingið frá breska þingmanninum Chris Ruane sem færði okkur boðskap núvitundar í stjórnmálum. Hann rakti upphaf frumkvæðisins í Bretlandi og hversu hratt og vel það hefði komist af stað. Það hófst þarlendis árið 2013 og fékk strax góðar undirtektir innan stjórnmálanna og þverpólitískan áhuga. Með framtakinu var sett af stað sérstök valkvæð innanþingsmenntun fyrir þingmenn og ráðherra sem fólst í því að fara á nokkurra vikna námskeið til að læra undirstöður núvitundar. Hugmyndafræðin á bak við það er að þeir sem starfa í umboði þingsins og taka viðamiklar og afdrifaríkar ákvarðanir fyrir hönd þess séu betur í stakk búnir að nýta sér kosti og möguleika núvitundar að námskeiði loknu, svo sem með því að setja sig í spor annarra, sýna sjálfum sér og öðrum betri og dýpri skilning og ekki síst að takast á við krefjandi aðstæður undir álagi og streitu.

Verkefnið hefur gefið góða raun og bætt starfsumhverfi stjórnmálanna þar sem það hefur verið notað. Í kjölfar heimsóknar Chris hingað var mér boðið í heimsókn í breska þingið þar sem haldið var sérstakt málþing um núvitund í stjórnmálum, heilbrigðiskerfinu, hernum og neyðarstörfum. Það var mögnuð upplifun að heyra reynslusögur einstaklinga og ótvírætt var að aukin núvitund hafði gert stórkostlega hluti fyrir marga mikilvæga þætti starfs þeirra.

Einna eftirminnilegust var frásögn Tims Boughtons, fyrrverandi þyrluflugmanns í breska hernum, sem hafði misst 37 vini í starfi sínu í stríðum. Hann lýsti því hvernig hann var kominn út í öngstræti eigin hugar og með áfallastreitu á háalvarlegu stigi. Hann sagði okkur frá því hvernig kynnin af núvitund hefðu gjörbreytt andlegri líðan hans og hvernig hann væri orðinn allt annar maður.

Eftir þessa heimsókn mína í Westminster stóð ég fyrir nokkrum núvitundarviðburðum í Kringlu Alþingis með góðri konu, Önnu Dóru Frostadóttur. Ég bauð þangað öllum þingmönnum, ráðherrum og starfsfólki Alþingis (Forseti hringir.) og það var virkilega ánægjulegt hve margir mættu. Ég get því miður ekki tekið upp þráðinn hvað varðar viðburði í Kringlunni vegna sóttvarnaaðgerða og heimsóknarbanns á Alþingi, (Forseti hringir.) en mig langar til þess að koma málefninu aftur í umræðuna hér á Alþingi og hver veit hvenær næst verður hægt að hittast og ná jarðtengingu saman.