151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

atvinnuleysistryggingar.

300. mál
[15:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Meiri hlutinn leggur til að allir þeir sem misstu vinnuna í mars fái sex mánaða tekjutengt tímabil en við leggjum til að þeir sem voru atvinnulausir í febrúar fái líka tekjutengt tímabil. Það voru 10.000 manns atvinnulaus í febrúar og mér er það óskiljanlegt að ríkisstjórnin, Vinstri grænir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, vilji skilja þetta fólk eftir. Það er í verri stöðu en hinir sem misstu vinnu síðar á árinu. Og hvað skyldi þessi breyting kosta? Hún kostar aldrei meira en 4 milljarða. Hún getur ekki kostað meira en 4 milljarða. Til samanburðar kosta tekjufallsstyrkir og viðspyrnustyrkir til fyrirtækja, sem við erum nú að vinna með í þinginu, 50 milljarða. Þetta kallar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur réttlæti.