151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[19:22]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Þetta vita flestir foreldrar. En þorpið þarf líka að geta tekið á móti. Þorpið þarf að hafa innviðina til að geta orðið að liði en það er ekki síður gagnlegt að þessir innviðir harmóneri hver við annan, vinni saman, spili saman. Það er gömul saga og ný að kerfin sem eiga að vera fyrir okkur og eru sköpuð af okkur vinni ekki sem skyldi með okkur og jafnvel á móti okkur. Þau frumvörp sem um ræðir taka stór og róttæk skref í átt að því að tengja saman þá innviði sem íslenskt samfélag býr nú þegar að og bæta við þá. Þetta eru miklar breytingar í þágu barna. Um er að ræða tvær nýjar stofnanir og mælaborð. Í samantekt kemur fram, með leyfi forseta:

„Í frumvörpunum er lagt til að stofnaðar verði tvær nýjar stofnanir þar sem rík áhersla verður á þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Unnið verður eftir samræmdum mælikvarða sem hjálpar við að tryggja samfellda þjónustu sem hæfir börnum.“

Megininntak frumvarpanna er því samræming reglna og samþætting starfs sem snýr að börnum og þjónustu við börn og fjölskyldur. Þetta er stór og merkileg framför. Ekki er síður jákvætt að með breytingunum verður einnig aukið gæðaeftirlit með þessum málaflokki. Hæstv. félags- og barnamálaráðherra hefur sagt um farsældarfrumvarpið sem hér kemur fram að barnið sé þungamiðjan og það staðfestist við lestur frumvarpsins. Kjarni þessarar vinnu snýr að því að kerfið standi vörð um velferð barna og því að einingar kerfisins vinni saman.

Forseti. Ég hef sett mig í samband við nokkra málsmetandi aðila sem starfa við þennan málaflokk og við ýmis málefni barna, m.a. geðheilbrigðismál. Endurgjöfin hefur verið einróma og alveg sérlega jákvæð í garð þessara frumvarpa. Loksins er það orð sem ég held að hafi komið oftast fyrir. Það segir okkur að þetta er löngu tímabært mál. Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir sagði í grein á vísi.is að hér væri um að ræða barnvæna byltingu og að hún hlakkaði til að vinna undir formerkjum farsældar barna.

Virðulegi forseti. Barnæskan endist í margar aldir. Það segir í áhugaverðum titli norskrar bókar sem fjallar um geðheilbrigðismál barna. Bókin fjallar einna helst um heitar kartöflur í fjölskyldum og hversu algengt það er að þegar um er að ræða óheilbrigð samskiptamynstur innan fjölskyldna þá erfist þau frá kynslóð til kynslóðar ef ekkert er að gert. Oft þarf aðeins lítil inngrip til að leiðrétta vandamál og rjúfa slíka vítahringi og mikilvægt að það sé gert. Oft þarf svo lítið til. Oft þarf svo lítið til að afstýra einhverju sem stefnir í óefni. Ég fæ ekki betur séð en að þessi frumvörp stuðli stórlega að því að bæta samfélagið okkar í þeim efnum. Áföll í barnæsku eru eitt nákvæmasta forspárgildi fyrir framtíð barna. ESAS-kvarðinn sýnir okkur þetta. Það er óvefengjanleg staðreynd að snemmtæk íhlutun í líf barna er ein mikilvægasta forvörnin og forsjónin fyrir framtíð þeirra, fyrir líf, heill og lífsgæði þeirra í vegferð lífsins. Það er fylgni milli erfiðleika í lífi barns og erfiðleika á unglings- og fullorðinsárum eins og fram hefur komið hér í kvöld í máli margra hv. þingmanna og eins í máli hæstv. ráðherra. Það er mikilvægt að hugsa þetta svoleiðis og til langs tíma og ráðast í aðgerðir með langtímahugsun að leiðarljósi. Það er mikilvægt að skilja orsakasamhengið á þennan hátt. Hins vegar er ekki síður mikilvægt að staldra aðeins við í nútímanum og hafa það hugfast að mörgum börnum líður illa núna. Það eru börn sem þjást núna og eru föst í veruleika vanlíðanar. Þessi börn þurfa hjálp nú þegar. Það færir mig yfir í umræðuna um biðlistana og mikilvægi þess að stytta þá.

Við höfum þó nokkrum sinnum hér í þingsal rætt um mikilvægi styttingar biðlista. Ráðherra komi inn á það í inngangi sínum að stigskipting innan kerfisins gæti átt stóran þátt í að stytta biðlista. Ég bind vonir við að sú verði raunin og að málið nái framgöngu hér innan þings og úti í samfélaginu og geri að verkum að þessir tíðræddu og hættulegu biðlistar styttist og að þau börn sem eru föst í vanlíðan núna fái bót meina sinna sem allra fyrst.

Hæstv. ráðherra kom inn á hversu arðbær fjárfestingin væri. Ég tek undir það sjónarmið enda þarf raunverulega ekki að vefengja það á einn eða neinn hátt. Eins og ráðherra kom inn á hefur þetta verið reiknað út af hagfræðingum og sett inn í excel-skjal sem margir vilja alltaf sjá í samhengi við hluti sem manni sjálfum finnst oft augljósir. Það er augljóst að ef við leggjumst í þessa vinnu fyrir framtíð og heill barna munum við uppskera, þau munu uppskera og samfélagið mun uppskera eins og það sáir. Eins fannst mér ánægjulegt að heyra ráðherra segja að þetta væri ekki síðasta skrefið heldur það fyrsta inn í framtíð þar sem velferð og hagsmunir barna verða í fyrirrúmi. Við eigum að byggja upp samfélag þar sem þungamiðjan er barnið, þar sem við setjum peningana þar sem orðin okkar eru og förum í alvöruaðgerðir þar sem barnið fær að blómstra og það fæðist inn í samfélag sem fagnar tilvist þess, styður við og getur gripið það þegar nærumhverfið á kannski erfitt með að gera það. Ég hlakka til að sjá árangurinn af þessari breytingu í framtíðinni.

Mig langar að vitna í grein eftir Gunnlaugu Thorlacius, félagsráðgjafa, fjölskyldufræðing og formann Geðverndarfélags Íslands, með leyfi forseta:

„Í greinargerð með stefnu og aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í geðheilbrigðismálum frá árinu 2016 kemur fram að aðgerðir sem styðja foreldra í uppeldis- og umönnunarhlutverki hafi víðtæk jákvæð áhrif á samfélagið og ætla megi að þær skili sér í farsælli skólagöngu og minna brottfalli, lægri glæpatíðni og betri atvinnu- og efnahagsstöðu. Forvarnir skuli miðast að því að draga úr stórfelldum kostnaði samfélagsins.

Í grannlöndum hefur verið reynt að hlúa að börnum sem búa við erfiðar aðstæður og byggja upp grunnþjónustu þar sem hugað er að þessum þáttum. Lögð er áhersla á að gefa fjölskyldum gaum og greina vel aðstæður þeirra. Sýnt hefur verið fram á að öflug þjónusta, þar sem tryggð er aðkoma og samvinna allra fagstétta, getur sparað mikla fjármuni þegar fram í sækir. Sé litið til þess að umhverfisþættir hafa áhrif á andlega og líkamlega heilsu er augljóst að því fyrr sem við grípum inn í og veitum viðeigandi aðstoð, þeim mun minni hætta er á að afleiðingarnar verði alvarlegar. Með því að bæta heilsufar foreldra, draga úr félagslegum vanda og fátækt og veita fjölskyldum stuðning miðað við aðstæður má efla velferð barna og draga úr líkum á að þau verði fyrir áföllum. Þetta hlýtur að teljast jákvætt og skynsamlegt, einkum og sér í lagi þegar hugað er að því hve dýrkeypt það er fyrir samfélagið að taka afleiðingar slíkra áfalla ekki alvarlega.“

Forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Vilhjálms Árnasonar í ræðu hér fyrr í kvöld um að fyrsti sigurinn í þessu verkefni hafi verið að menn náðu saman, að ólíkir pólitískir ásar gátu málefnalega leitt saman hesta sína og farið í þá vegferð sem skilaði þeim árangri sem þessi frumvörp eru til marks um. Sú pólitíska samstaða verður að halda áfram í þessari vinnu. Það má aldrei gerast að málaflokkur barna verði að pólitísku bitbeini og skiptimynt. Eins þótti mér ánægjulegt að fulltrúi þess stjórnarflokks sem fer með fjármálaráðuneytið virtist sjá mikilvægi þessarar fjárfestingar og sagði réttilega að um væri að ræða smámynt í stóra samhenginu. Ég vona að hv. þingmaður haldi þeim sjónarmiðum ofarlega á lofti áfram í sínum ranni.

Þetta frumvarp mun ganga til velferðarnefndar þar sem ég á sæti í fjarveru hv. þm. Halldóru Mogensen sem setið hefur við borðið í þessari vinnu. Ég hlakka til að hafa aðkomu að þeirri vinnu sem fram undan er við þessi frumvörp og ég fagna því að þau séu komin fram. Breytingin er róttæk. Þetta er hugsjónaverkefni af þeim toga sem maður hefði kannski getað látið sig dreyma um en ekki haft nokkra einustu trú á að myndi nokkurn tímann verða að veruleika. Það er oft þannig í pólitík að stórir og fallegir draumar deyja drottni sínum vegna pólitískra þræta og rörsýnar á smáatriði sem skipta miklu minna máli. En nú höfum við á síðasta sólarhring séð tvö mjög stór hugsjónaverkefni komast á dagskrá í þingsal. Ég vona að það hafi eitthvert forspárgildi um það sem koma skal. En útópíur hafa líka tilhneigingu til að verða að veruleika. Við höfum séð það með mannréttindabaráttu í gegnum tíðina og við erum að sjá, virðulegi forseti, mannréttindabaráttu raungerast, að mannréttindi barna séu sett í forgang, í algjöran forgang, eins og auðvitað á að gera.

Ég óska hæstv. ráðherra innilega til hamingju með þetta.