151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[19:37]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Segja má að við stöndum á ákveðnum tímamótum í dag og það er mikið fagnaðarefni að þau þrjú frumvörp sem við ræðum, frumvarp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, frumvarp um Barna- og fjölskyldustofu og frumvarp um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, séu komin til umræðu. Eins og hefur komið fram áður í dag hefur starfað á kjörtímabilinu þingmannanefnd sem hefur fengið að fylgjast með málinu og leggja til breytingar og unnið með starfsfólki ráðuneytisins að því að klára þessi þrjú frumvörp. Full ástæða er til að hrósa hæstv. ráðherra og samstarfsfólki hans í ráðuneytinu fyrir þá vinnu sem liggur hér að baki, jafnframt að þakka öllum þeim hundruðum manna úti í samfélaginu sem hafa lagt málunum lið, ýmist í sérstökum vinnuhópum á vegum ráðuneytisins eða í alls konar samráðshópum og með beinum samtölum og upplýsingagjöf inn í ráðuneytið. Það er mjög mikilvægt og sannfærir mann í rauninni í því sem nokkrir aðrir þingmenn hafa komið inn á og vitna þar í Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og það sem hún kemur inn á í þekktri bók, sem heitir á frummálinu It takes a village, með leyfi forseta, að samfélagið allt þurfi að koma að uppeldi barns. Á sama hátt þarf samfélagið allt að koma að samningu frumvarpsins og hefur í rauninni hluti samfélagsins gert það. Má segja að það skýri kannski að stærstum hluta til gæði afurðarinnar hvað margar góðar hendur hafa lagt hönd á plóg.

Í frumvörpunum er lagt upp með það að samþætta þjónustu við börn og þá í rauninni að samþætta verklag sveitarfélaga og annarra aðila sem koma að vinnu við farsæld barna. Það er ekki svo lítið verkefni og þar er í rauninni verið að horfast í augu við þann raunveruleika sem ég nefndi hér áðan, að það dugir ekki að einn þáttur í velferðarkerfinu eða einn þáttur í þjónustu sveitarfélags eða einn þáttur í þjónustu ríkisins komi að ef hann veit ekki hvað hinir þættirnir eða hinar hendurnar gera í málinu. Þarna þarf að vera öflugt samráð vegna þess að eins og hefur ítrekað komið fram í dag þá skiptir höfuðmáli að við vinnu með börn sé horft til hagsmuna þeirra. Það geta ekki verið hagsmunir barna að þeir sem vinna að málum þeirra togi hver í sína áttina. Það er algjört grundvallaratriði.

Í III. kafla frumvarpsins um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er komið að stigskiptingu í þjónustu við börn. Það er mjög mikilvægt nýmæli vegna þess að þarna er í rauninni verið að taka ákvörðun um að það sé í alvöru hlutverk okkar allra að grípa börnin og í rauninni um leið grípa tækifærið til að styðja fjölskyldur strax á fyrsta stigi til að reyna með öllum ráðum að forða því að þjónustuþörfin færist upp á næsta stig þar fyrir ofan þar sem hún er ekki bara afdrifaríkari fyrir börnin heldur líka dýrari fyrir þau samfélög sem þau búa í.

Kveðið er á um það í frumvörpunum að til verði það sem hefur í umræðunni í dag verið kallað tvær nýjar stofnanir í þjónustu við börn. Auðvitað er það ekki þannig að við séum að búa til það sem má kalla „nýjar stofnanir“. Við erum að fella Barnaverndarstofu í rauninni undir Barna- og fjölskyldustofu, fela henni viðameiri verkefni, meira utanumhald og auðvitað verður þá áfram ein stofnun sem sinnir því verki. Á sama hátt er Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, sem er þá aftur „ný stofnun“, í rauninni að verða að sjálfstæðri einingu fyrir utan ráðuneytið þar sem hún hefur verið fram undir þetta. Einhverjir sem á mál mitt hlýða kynnu að halda að nú værum við eina ferðina enn að bæta í stofnanakerfi ríkisins og eina ferðina enn að fjölga stofnunum, en það er í raun ekki þannig. Hér er fyrst og fremst verið að bæta verklag og tryggja að starfsemi verði með þeim hætti sem best getur þjónað börnum.

Töluvert hefur verið rætt um það hér í dag hvaða hlut sveitarfélögin hafi í þessu verki og sem betur fer hafa sveitarfélögin og Samtök sveitarfélaga komið ríkulega að vinnunni í tengslum við þessi mál. Það skiptir gríðarlega miklu máli vegna þess að á endanum eru það náttúrlega sveitarfélögin sem eru fyrst og fremst með nærþjónustu við börn og þess vegna er fyrsta stigs þjónustan kannski að stærstum hluta til þar. Þess vegna er svo mikilvægt, eins og ég innti hæstv. ráðherra eftir í andsvari hér áðan, að gert er ráð fyrir því og hugsað fyrir kostnaðinum sem af þessu hlýst, m.a. á sveitarstjórnarstiginu, og þá í gegnum jöfnunarsjóðinn eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan. Það skiptir verulegu máli vegna þess að það verður að tryggja að við gerum þetta ekki bara á forsendum ríkisins heldur á forsendum allra þeirra persóna og leikenda sem munu koma að verkinu. Það skiptir gríðarlega miklu máli.

Herra forseti. Mig langar aðeins að nefna barnaverndina aftur. Hæstv. ráðherra nefndi einnig í andsvari áðan að hún muni þurfa endurskoðunar við og fram muni koma frumvarp um endurskoðun á barnaverndarlögum. Það leiðir í raun af sjálfu sér að með framlagningu þessara frumvarpa þarf að endurskoða barnaverndarlög en þar eru nokkur atriði sem eru sérstaklega mikilvæg. Til að mynda það að reyna eftir fremsta megni að tryggja að barnaverndarstarf sé þvert á sveitarfélög, að teknar séu saman stærri einingar heldur en er í dag og að barnaverndarstarf sé fyrst og síðast á faglegum forsendum og ekki verið að vinna það inni í einhverjum pólitískum nefndum. Auðvitað munu félagsmálaráð og félagsmálanefndir sveitarfélaganna þurfa að samþykkja og stimpla, eins og kallað er, þær ákvarðanir sem kunna að verða teknar í barnavernd en það á ekki að vera þannig að pólitískt kjörnir fulltrúar sýsli með mál einstakra barna innan sveitarfélaganna. Það starf á að vera faglegt og ég hef nokkra vissu fyrir því að vilji sé til þess, bæði innan þings og í ráðuneytum, að reyna að nálgast verkefnið með þeim hætti. Í þessu máli, og þá sérstaklega í barnaverndarstarfinu, þarf líka að eiga sér stað mikið samstarf milli sveitarfélaga, ég tala nú ekki um þegar börn flytjast á milli sveitarfélaga. Þá þarf að vera tryggt að það starf sem hefur verið unnið á vettvangi eins sveitarfélags haldi áfram í því næsta þannig að hægt sé að tryggja farsæld þeirra.

Ég geri mér grein fyrir því, herra forseti, að sú vinna sem á eftir að fara fram í hv. velferðarnefnd um þessi mál á eftir að verða allnokkur. Þá er þó mjög gott að nefndin hefur það í nesti að drjúgur hluti velferðarnefndar starfaði einnig í barnanefndinni sem vann með þessi frumvörp á vinnslustigi og ég vona því að starfið í nefndinni geti gengið vel. Ég hlakka til þeirrar vinnu og ég hlakka til þess þegar kemur fram á vorþingið og við klárum þessi mál og tökum risastórt skref í átt að því að bæta þjónustu við íslensk börn og tryggja farsæld þeirra.