151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

endurgreiðsla til ellilífeyrisþega.

[10:46]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Við tökum senn út fjárauka númer fjögur eða fimm, ég veit ekki hvað, ég býst við því að hann komi til umræðu í næstu viku. Þess vegna langar mig rosalega mikið að beina því til hæstv. fjármálaráðherra hvort það hafi verið eitthvað á borði hans og ríkisstjórnarinnar að koma til móts við þá örfáu einstaklinga, fátæka eldri borgara, sem hæstv. fjármálaráðherra hefur gjarnan tíundað hér og sagt að þetta sé nú ekki slíkur fjöldi að þurfi um að tala. En á sama tíma sjáum við náttúrlega tvöföldun í mælanlegri fátækt í kjölfarið á þessum hræðilega heimsfaraldri. Gleðifréttirnar eru þessar, og til hamingju með það, hæstv. ríkisstjórn og ráðherra, að 50.000 kr. verða greiddar fyrir jólin, eingreiðsla til öryrkja. Það er engin ástæða til að bíða eftir því, enda var sú fjárveiting þegar til staðar og löggjafinn, fjárveitingavaldið hafði þegar gefið grænt ljós á það.

En nú spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Megum við eiga von á því að í næsta fjárauka verði hugsanlega tekið utan um þá fáu eldri borgara sem eru hér í sárri fátækt? Eru með berstrípaðar almannatryggingabætur. Eru að fá ríflega 240.000 kr. útborgað. Megum við eiga von á því að hæstv. ríkisstjórn og fjármálaráðherra taki þetta fólk í fangið líka og mismuni þeim ekki fyrir jólin?