151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

eingreiðsla til ellilífeyrisþega.

[10:50]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ekkert svar. Ég hafði aldrei á ævi minni ímyndað mér að hér gæti komið önnur eins romsa og að ein fyrirspurn gæti verið tekin svo úr samhengi. Hún var einföld, ég er að tala um lægstu tekjutíundirnar, hæstv. fjármálaráðherra. Ég er ekki að tala um þá eldri borgara sem hafa það gott. Ég er að tala um þá örfáu sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sjálfur sagt að séu svo fáir að eins og ég hef getað lesið í það ætti ekki að vera vandamál að koma til móts við þá. Ég er ekki að tala um þá sem hafa nóg að bíta og brenna.

Hæstv. fjármálaráðherra þykist ekki vita hvað mismunun er. Talandi um tvö kerfi, þá er ég að tala um tvo ólíka hópa sem eru samt sem áður að nýta sér sama kerfi, sem er almannatryggingakerfið, nema hvað að aldraðir hafa lægri framfærslu frá almannatryggingakerfinu því að þeir missa svokallaða aldurstengda örorkuuppbót um leið og þeir detta inn í það að verða eldri borgarar. Ég tel það mismunun. Hæstv. fjármálaráðherra má sjá það einhvern veginn öðruvísi.

Ég spyr aftur: Er það eðlilegt og ætlar hæstv. fjármálaráðherra að taka utan um þann hóp? Skilur hann ekki hvað ég er að segja, er ég svona óskýrmælt?