151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég sagði að ég ætlaði að koma aðeins inn á sveitarfélögin. Hv. fjárlaganefnd fjallaði þó nokkuð um sveitarfélögin og eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni er þetta forskrifað í 11. gr. laga um opinber fjármál, þessi samráðsvettvangur sem á að vera á milli ríkis og sveitarfélaga, og það er vel. Í yfirlýsingu sem var undirrituð og hv. þingmaður kom inn á voru framlög aukin í gegnum jöfnunarsjóðinn til að mæta nokkrum mikilvægum málum í þjónustu sveitarfélaganna sem er mikilvægt að skerðist ekki við þessar aðstæður. Jafnframt kemur þar fram að það eigi að fylgjast mjög vel með þróuninni. Það er mikilvægt að sveitarfélögin geti mætt þessari niðursveiflu af sama krafti og ríkið vegna þess að af heildarumfangi ríkissjóðs eru sveitarfélögin um það bil einn þriðji.

En síðan gleymast svolítið í umræðunni fjölmargar af þeim Covid-aðgerðum sem við höfum verið að fara í gegnum með fjáraukalagafrumvörpum. Ég nefndi hér eina, 600 milljónir í stuðning við íþrótta- og tómstundastarf. Settar voru 540 milljónir í heilsueflingu í heimabyggð, geðrækt og andlegt heilbrigði, 450 milljónir voru settar í að vinna gegn félagslegri einangrun aldraðra og til að efla félagsmiðstöðvar fyrir eldri borgara. Listinn er langur og þetta safnast saman. Þetta eru allt aðgerðir sem nýtast sveitarfélögum; endurgreiðsla á virðisaukaskatti o.fl. Við þurfum svolítið að ná utan um þetta, hverju það skilar og hvaða áhrif þetta hefur síðan á útsvarstekjur sveitarfélaganna og önnur verkefni. Svo eru auðvitað sóknaráætlanir sem við erum að bæta í hér o.fl. Þannig að þetta er kannski ekki alveg einfalt og erfitt að blanda saman við þessa umræðu um 50 milljarðana sem óskað var eftir í stuðning beint til sveitarfélaga.