151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Miðflokkurinn leggur áherslu á hagræðingu í ríkisrekstri og að dregið verði úr ríkisbákninu sem hefur vaxið hratt í tíð þessarar ríkisstjórnar. Fjárlagafrumvarpið ber þess merki að það á ekki að vinda ofan af ríkisbákninu og þar fer fremstur í flokki Sjálfstæðisflokkurinn eins og venjulega, sem reglulega hefur hrópað hátt fyrir kosningar: Báknið burt. Þegar flokkurinn kemst síðan til valda heldur báknið áfram að vaxa. Við þurfum að taka rækilega til í ríkisfjármálunum og minnka ríkisbáknið, sagði hæstv. fjármálaráðherra árið 2010. Árið 2020 sagði sami ráðherra að það væri endalaus blóðug sóun úti um allt í opinbera geiranum. Hann gerir ekkert í málinu. Hér er lögð til hagræðing á öll ráðuneyti. Oft er þörf en nú er nauðsyn.