151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[14:31]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég hélt að flestir þingmenn áttuðu sig á mikilvægi Ríkisútvarpsins á þessum tímum sem öðrum. Við sáum þegar fjárlagafrumvarpið kom fram að þá átti að skera fjárframlög til Ríkisútvarpsins niður um 300 milljónir. Hér eru settar 140 milljónir til baka en þá vantar 160 milljónir. Uppsagnirnar eru hafnar. Þess vegna er mjög sérkennilegt að heyra hér orð hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés um að hann vilji hækka fjárframlög til Ríkisútvarpsins. Hér var tillaga fyrir tveimur mínútum um að bæta Ríkisútvarpinu það tekjutap sem er í fjárlagafrumvarpinu. Hv. þingmaður ýtti á nei-takkann. Í hvaða sal var hv. þingmaður? Talandi um sýndarmennsku. (IngS: Hann er í hliðarsal.)

Hér eru haldnar innblásnar ræður um að fólk vilji gera hitt og þetta og svo þegar hv. þingmenn fá tækifæri til þá sést það ekki í atkvæðagreiðslunni. Af hverju er alltaf þessi skotgrafarhernaður? Hvernig stendur á því, og ég ætla kannski að halda ræðu um það á eftir, að allar tillögur stjórnarandstöðunnar eru felldar á tímum heimsfaraldurs? (Forseti hringir.) Geta hv. stjórnarþingmenn ekki hætt í þessum sandkassaleik? (Forseti hringir.) Talandi um tillögur sem þeir styðja og hafa stutt (Forseti hringir.) margoft í þessum þingsal.