151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[18:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja nokkur orð á almennum nótum um það frumvarp sem hér liggur fyrir til 2. umr., frumvarp til laga um breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði. Það hefur komið hér fram og sá tónn hefur aðeins verið undirliggjandi, m.a. hjá hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni hér fyrr í umræðunni, að verið sé að grauta saman sjónarmiðum sem snúa að kynhneigð, kynvitund, trans, intersex og síðan auðvitað bara því sem hér er undirliggjandi, börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Til að hv. þingmaður sé alveg rólegur þá er það ekki raunin. Þær efasemdir sem fyrst og fremst eru uppi, a.m.k. af minni hálfu og mér heyrist hjá félögum mínum í þingflokki Miðflokksins, eru um þetta bann við nútímalækningum á börnum. Þetta er óskaplega skrýtið mál sem liggur hér fyrir þar sem er beinlínis verið að banna börnum og foreldrum og eftir atvikum samfélaginu öllu að nýta möguleika læknisfræðinnar í nútímanum til að gera líf barns sem best. Það skín í gegn eitthvert vantraust í garð foreldra í þessu máli eins og svo sem fleirum sem liggja fyrir þinginu núna. Má þar nefna frumvarp um fæðingar- og foreldraorlof, sem verður væntanlega að lögum núna fyrir vikulokin, þar sem ríkisvaldið vill hafa mikla skoðun á því hvernig foreldrar skipta með sér fæðingarorlofinu þegar staðreyndin er sú að auðvitað er fæðingarorlofið fyrir barnið og það á að nálgast málið þannig að hagsmunir barnsins séu alltaf í fyrirrúmi.

Þetta vantraust má segja að endurspeglist í þeirri tilhneigingu að setja ákvarðanir þessu máli tengdu inn í sérfræðinganefnd. Það var mál til afgreiðslu fyrir ekki löngu síðan, á þarsíðasta þingi, um fóstureyðingar, svokallað þungunarrofsmál. Þar skipti öllu máli að rétturinn til að eyða fóstri væri fortakslaust móðurinnar og meira að segja gekk svo langt að hæstv. forsætisráðherra gerði grein fyrir skoðun sinni hér í pontu og lýsti því að hún teldi að þessi réttur ætti að vera alveg fram að fæðingu. Þá finnum við okkur á þeim stað að það má deyða fóstur í móðurkviði alveg fram að fæðingu en um leið og barnið er fætt, bara nokkrum mínútum síðar, þá má ekki lækna það. Þetta getur ekki verið markmiðið hjá okkur. Ég bara trúi því ekki. Ég hreinlega trúi því ekki að það sé sjónarmið stórs hluta þingmanna. Þó að það hafi ekki orðið niðurstaðan hvað fóstureyðingarmálið varðar, það voru sett tímamörk þar, er það engu að síður þannig að ákveðinn hópur þingmanna er þeirrar skoðunar að barn megi deyða í móðurkviði alveg fram að fæðingu en strax þegar barn er fætt þá megi ekki lækna það. Þetta er óskaplega skrýtið og bendir til þess að þetta mál, eins og svo mörg önnur sem tengjast þessum lagabálki er snýr að kynrænu sjálfræði, hafi verið lítið rætt, bæði almennt og síðan í þeirri nefnd sem um málið fjallar. Ef ég man rétt fer allsherjar- og menntamálanefnd með þetta mál, væntanlega á þeim forsendum að lagabálkurinn er vistaður hjá forsætisráðherra en ekki heilbrigðisráðherra þó að hér sé verið að ræða um heilbrigðismál.

Þetta vildi ég segja áður en ég fer í frumvarpið sjálft. Það hefur komið upp umræða um það að við þurfum að sýna meira umburðarlyndi. Ég er alveg sammála því að meira umburðarlyndi væri af hinu góða. Ég er persónulega ekki til í að sýna neitt mikið meira umburðarlyndi gagnvart því að ung börn njóti ekki bestu læknismeðferðar og þjónustu sem völ er á út af einhverjum kreddum. Gagnvart slíkum æfingum er ég ekki til í að sýna neitt umburðarlyndi. Það kemur mér raunar hreinlega á óvart að málið sé komið þetta langt, inn í þingsal til 2. umr., og kemur sérstaklega á óvart að þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks séu áhugasamir um mál sem þetta. Það er alveg ótrúlegt. Síðan er auðvitað makalaust að heyra umræðu um að það sé einhverjum vafa undirorpið hvort Læknafélagið hafi sent inn umsögn eða ekki. Það bendir ekki til þess að málið hafi verið tækt til að koma til 2. umr. Það væri auðvitað réttast að kalla eftir því að málið verði tekið inn til hv. allsherjar- og menntamálanefndar á milli 2. og 3. umr. Þó að ég sé ekki nefndarmaður þá kem ég því hér með á framfæri við forseta og geri ráð fyrir að einhver geri það sömuleiðis í umræðunni, ef ég man rétt þarf ekki nema einn nefndarmaður að leggja það til til að málið sé tekið inn á milli umræðna.

Það blasir við að málið er ekki tilbúið, það er ekki tækt, það hefur ekki verið rætt þannig að einhver vitrænn botn sé kominn í það. Í samráðsgátt voru fimm umsagnir. Umsagnir til þingnefndar voru, ef ég man, 13. Engin þessara 18 umsagna kom frá lækni eða neinum stofnunum tengdum heilbrigðismálum, ef ég man rétt. Það er ekkert frá Landspítalanum sem þó sendi inn umsögn varðandi lög um kynrænt sjálfræði á sínum tíma á 149. þingi. Það er ekki orð frá landlækni. Hvernig má það vera? Hvernig má það vera að svo ólíklega fari að landlæknisembættið veiti ekki umsögn um málið og að nefndin taki það ekki upp hjá sjálfri sér að kalla eftir henni, ef landlæknisembættinu, í miðju Covid, yfirsást að veita umsögn um mál þar sem er beinlínis verið að takmarka aðgengi barna að læknisþjónustu? Hvernig má það vera að nefndin hafi ekki tekið það upp hjá sjálfri sér að kalla til fulltrúa landlæknisembættisins til að fara yfir þessi mál? Mér er alveg fyrirmunað að skilja það. Það læðist að manni sá grunur að með þetta mál, eins og lagabálkinn þegar hann fór hér í gegn á 149. þingi, hafi þótt þægilegt að hafa umræðuna sem minnsta, þetta rynni í gegn órætt, sem er algerlega ótrúlegt ef við horfum til þess hvernig þessi umræða er í löndunum í kringum okkur.

Ef við horfum t.d. til Bretlands eiga sér stað gríðarlega miklar umræður um þessi mál og margar lærðar greinar hafa birst. Nú síðast 1. desember sl. féll tímamótadómur þar í máli er tengist því sem hér er undir og samkvæmt mínum upplýsingum hefur ekkert af þessu, ekki neitt, verið rætt og engin sjónarmið sem þar eru uppi verið rædd innan nefndarinnar. Þá þýðir ekkert að vísa til þess að einhver starfshópur hafi starfað á grundvelli laga um kynrænt sjálfræði. Við þingmenn höfðum engan aðgang að þeim starfshópi, hvað þá þingmenn sem ekki sitja í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Þannig að málið er ekki fullrætt. Og af því ég veit að hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir er búin að óska eftir því að koma í andsvar við mig hér á eftir, þó að ég sé ekki í stöðu til þess að spyrja hv. þingmann spurninga og hún metur það bara hvort hún vill koma inn á það eða ekki í andsvarinu, langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður styðji það ekki að málið verði tekið inn til nefndar á milli 2. og 3. umr., þótt ekki væri nema bara út frá þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram varðandi Læknafélagið, hvort það sendi inn umsögn eða ekki, eða hvort fulltrúi landlæknis verði kallaður fyrir nefndina til að fara yfir þau sjónarmið sem uppi kunna að vera. Ég ítreka að ég veit ég á enga heimtingu á svari frá hv. þingmanni en af því að þingmaðurinn er nefndarmaður og hefur komið hér upp í nokkur andsvör og ég veit ekki hvort ég fæ tækifæri til að koma í andsvar við hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur hér á eftir þá langar mig að kasta þessari spurningu fram.

Áður en ég fer í efnisatriði eða greinar frumvarpsins langar mig að segja nokkur orð um hvernig á þessu er tekið í nágrannalöndum okkar. Ég er aðeins búinn að koma inn á þá miklu umræðu sem er í Bretlandi. Það er skemmst frá því að segja að í frumvarpinu er á bls. 8 kafli 3.3, Aðrar Norðurlandaþjóðir. Ég ætla, með leyfi forseta, að fá að lesa stuttan kafla upp úr frumvarpinu.

„Aðrar Norðurlandaþjóðir hafa ekki sett sérstaka löggjöf um breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og misjafnt er milli landa hvort stefnt sé að slíkri lagasetningu. Í Danmörku stendur yfir endurskoðun á heilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga með ódæmigerð kyneinkenni en Barnalæknafélag Danmerkur hefur jafnframt gefið út leiðbeiningar um ódæmigerð kyneinkenni. Stefna finnsku ríkisstjórnarinnar er að styrkja réttindi barna með ódæmigerð kyneinkenni og banna ónauðsynlegar skurðaðgerðir á kynfærum ungbarna vegna útlits. Starfshópur á vegum stjórnvalda hefur haft málefni barna með ódæmigerð kyneinkenni til umfjöllunar. Í Svíþjóð hafa stjórnvöld kynnt nýjar klínískar leiðbeiningar fyrir heilbrigðisstarfsfólk um ódæmigerð kyneinkenni.“

Hvernig má það vera að við finnum okkur hér í einhverju kapphlaupi í ljósi þess hversu lítt og grunnt málið virðist unnið? Þótt ég verði eflaust skammaður fyrir það þá er mjög stutt í að þetta lykti af einhverri dyggðaflöggun, að ætla sér að verða fyrst að innleiða regluverk sem þetta. Það liggur ekkert á. Ég held að allir þingmenn allra flokka beri hag barna fyrir brjósti og vilji að lífsgæði þeirra séu sem mest. Leiðin til þess er ekki að taka af börnum réttinn til að njóta eðlilegrar nútímalæknismeðferðar. Það getur ekki verið markmiðið. Það má ekki vera það.

Síðasta atriðið sem ég ætla að koma inn á áður en ég fer í efnisatriði frumvarpsins snýr að fjöldanum. Það hefur jafnframt komið mér á óvart hvað umræðan hefur verið í lausu lofti um fjölda þeirra sem falla undir þessa skilgreiningu, jafn óljós og víð og hún er, og hversu litlar upplýsingar um það liggja fyrir. Þær eru hreinlega engar í frumvarpinu sjálfu og hef ég lesið það staf fyrir staf og engar í nefndarálitinu heldur. Það kom fram í ræðu fyrr í dag, ég held í ræðu framsögumanns meiri hluta nefndarálitsins, hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur, að um gæti verið að ræða upp undir 1,7% barna sem fæðast á Íslandi. Það er úr öllum takti við þær upplýsingar sem liggja fyrir, til að mynda í grein dr. Leonards Sax sem fjallar um fjölda þeirra sem falla undir þessar skilgreiningar. Ég er með hana hér á ensku og yfirskrift greinarinnar er „How common is intersex?“ eða: í mjög lauslegri þýðingu Hversu algeng er intersexskilgreiningin? Þar er niðurstaðan sú, og það er ekki niðurstaða sem er úr lausu lofti gripin heldur virðist þarna vera undirliggjandi stærsta rannsókn á þessu sem framkvæmd hefur verið, að þetta hlutfall sé 0,018%. Ef við reiknum með að á Íslandi búi 360.000 manns, eitthvað svoleiðis, eru 0,018% rúmlega 60 einstaklingar. Ég held að við ættum að einbeita okkur að því að styðja sem mest og best við þessa einstaklinga, gera líf þeirra sem best og bærilegast, styðja við það sem bætir líf þeirra á hvaða tímapunkti sem kann að vera en ekki fara út um víðan völl undir þeim formerkjum að ætla að gera allt fyrir alla og enda á því að gera ekki neitt fyrir neinn, sem oft vill verða. Það er eiginlega ótækt að málið sé komið til 2. umr. og að meiningarmunurinn á því hvert umfang málsins er sé jafn gríðarlegur og hér er undirliggjandi. Munurinn á 0,018% og 1,7%, eins og hv. framsögumaður nefndarálits meiri hluta kom inn á fyrr í dag, er hartnær hundraðfaldur. Við getum ekki unnið mál áfram á þessum forsendum.

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ekkert annað í stöðunni en að kalla málið inn til nefndar á milli 2. og 3. umr., kalla til þá gesti sem hafa verið nefndir hér og munu alveg örugglega koma fram frekari óskir upp og það er boðið. Það er algerlega ótækt að málið sé klárað án þess að til að mynda Læknafélagið, og þessi meinta umsögn þeirra sem virðist hafa týnst, og landlæknir komi að borðinu.

Virðulegur forseti. Upp á flæði og samhengi hlutanna að gera þá á ég núna tvær mínútur eftir af ræðutíma mínum og næst á dagskrá hjá mér er að fara í efnisatriði frumvarpsins þannig að ég ætla að leyfa mér að segja þetta gott núna, til þess að ég sé ekki bara að byrja á nokkrum orðum, og bið ég hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá. Þá er næst á dagskrá hjá mér að fara í frumvarpið sjálft og nefndarálit meiri hluta.