151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

skattar og gjöld.

314. mál
[22:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Það er margt ágætt í þessu frumvarpi en ég vildi koma sérstaklega inn á tryggingagjaldið. Við þekkjum það náttúrlega að horfur á vinnumarkaði eru ekki góðar og það er fyrst og fremst rakið til veirufaraldursins og hruns í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Núna í lok október voru 25.000 manns skráðir atvinnulausir samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunar og þar af er 22% atvinnuleysi á Suðurnesjum sem er tvöfalt hærra en á landsvísu. Það er afar mikilvægt að styðja við fyrirtækin í þessum kringumstæðum svo þau geti haldið starfsfólki sínu og vonandi þá bætt við sig starfsfólki um leið og fer að birta til. Það er líka rétt að hafa í huga að spá Hagstofunnar frá 1. október sl. gerir ráð fyrir 3,91% hagvexti árið 2021 en Seðlabankinn gaf síðan út spá núna 1. nóvember sem er dekkri en spá Hagstofunnar þar sem bankinn gerir ráð fyrir 2,3% hagvexti. Hvað atvinnuleysi varðar gerir Hagstofan ráð fyrir að það verði 6,8% á landsvísu en Seðlabankinn er aftur með dekkri spá og gerir ráð fyrir að það verði 8,3%.

Það er því enn þá óvissa í kortunum með hvernig atvinnuástandið verður á nýju ári en vissulega vonum við að það fari að batna um leið og bólusetningar hefjast hér á landi, sem við horfum öll til með tilhlökkun. Það er líka nauðsynlegt að styðja við bakið á fyrirtækjum vegna þess að launakostnaður hefur hækkað og síðan er skattheimta á íslensk fyrirtæki tiltölulega há í alþjóðlegum samanburði. Hún er næsthæst á Íslandi hvað Norðurlöndin varðar, á eftir Noregi. Við þekkjum það að eftir efnahagshrunið 2008 voru skattar á fyrirtæki hækkaðir í þeirri viðleitni að loka fjárlagagatinu. Síðan hafa þessar skattbreytingar hins vegar verið að festast í sessi og það hefur verið gegnumgangandi tregða hjá ríkisvaldinu að lækka tryggingagjaldið. Þetta er einn stærsti tekjustofn ríkissjóðs en það er nú þannig að hátt tryggingagjald kemur verst niður á fyrirtækjum þar sem laun og launatengd gjöld eru stór hluti kostnaðar. Svo megum við ekki gleyma því að bætt samkeppnishæfni Íslands er náttúrlega mikilvæg og sérstaklega nú á tímum þegar endurreisnin hefst vonandi og viðspyrnan sem fyrst, þá verðum við að vera í stakk búin að mæta því. Þá skiptir samkeppnishæfni verulegu máli.

Við í Miðflokknum lögðum fram breytingartillögu við 2. umr. fjárlaga fyrir skömmu um að lækka tryggingagjaldið enn frekar. Núna stendur sjálft tryggingagjaldið í 4,9% og verður lækkað tímabundið í eitt ár eða í staðgreiðslu á árinu 2021 og við álagningu opinberra gjalda árið 2022 vegna tekna ársins 2021 úr 4,9% í 4,65% og verður því samtals 6,10%. Við í Miðflokknum hefðum viljað sjá meiri lækkun á næsta ári vegna þess að það er afar mikilvægt, eins og ég sagði áðan, að styrkja rekstrargrundvöll fyrirtækjanna í þessu erfiða árferði og koma í veg fyrir það að fyrirtæki sem berjast í bökkum núna lendi í gjaldþroti á þessum síðustu metrum, vonandi, þessara erfiðleika. Því miður var sú tillaga okkar felld í atkvæðagreiðslu við 2. umr. fjárlaga. Staðreyndin er sú að tryggingagjaldið hefur í vaxandi mæli verið notað til að fjármagna önnur útgjöld ríkissjóðs og það er náttúrlega umhugsunarefni. Við þekkjum það að gjaldið er reiknað sem hlutfall af þeim launum sem fyrirtækið greiðir til starfsmanna sinna, því fleiri krónur sem fyrirtækið greiðir í laun þeim mun hærri fjárhæð þarf það að greiða í tryggingagjald. Því hærri sem tryggingagjaldsprósentan er þeim mun dýrari er hver starfsmaður fyrir sitt fyrirtæki.

Ég vil árétta, herra forseti, að það er mjög mikilvægt að hlúa að fyrirtækjum og standa vel að því, ekki síst minni fyrirtækjum. Þau hafa verið svolítið út undan, þessi allra minnstu fyrirtæki, í aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Það hefur komið fram. Þau hafa meira að segja látið gera skoðanakönnun um að hvaða leyti aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa gagnast þeim og í mörgum tilfellum hafa minni fyrirtæki orðið út undan. Það hefur t.d. komið í ljós að þegar þau hafa verið að sækja um styrki þá hefur þetta verið flókið ferli. Fyrirtækjaeigendur hafa jafnvel þurft að leita sér aðstoðar til að sækja um. Þeir hafa sótt um í góðri trú og síðan hefur komið í ljós að þeir hafa ekki haft heimild til að sækja um og hafa þurft að endurgreiða sem síðan hefur haft slæm áhrif á reksturinn. Það verður því að segjast eins og er að það er margt í þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem hefði svo sannarlega mátt vera mun einfaldara í framkvæmd. Svo kemur t.d. á daginn með einyrkja að þessir styrkir skipta verulegu máli þegar horft er til stöðugilda og svo þegar eigandi sjálfur er að starfa við sitt fyrirtæki getur hann ekki sótt um styrk í sínu nafni sem einyrki. Það eru í þessu ferli hlutir sem hefur svo sannarlega þurft að laga vegna þess að það er ákaflega mikilvægt að gæta jafnræðis.

Að lokum vil ég segja, herra forseti, að það eru góðir hlutir í þessu frumvarpi og vonandi gagnast þeir. En ég árétta aftur að við í Miðflokknum hefðum viljað sjá frekari lækkun gjaldsins vegna þess að það er einu sinni þannig að næsta ár kemur til með að ráða úrslitum um það hversu mörg fyrirtæki koma til með að lifa þennan veirufaraldur af. Það veltur að sjálfsögðu á viðspyrnunni, hversu kröftug hún verður og hvenær hún hefst. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að við búum eins vel í haginn fyrir fyrirtæki og við frekast getum, svo að þau geti haldið starfsfólki sínu, allt helst þetta í hendur, og við drögum úr því mikla atvinnuleysi sem nú steðjar að okkur og er mikið böl.