151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

skattar og gjöld.

314. mál
[15:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni leggjum fram tvær breytingartillögur við þennan bandorm sem fjallar um eitt og annað er varðar skatta og gjöld. Í fyrsta lagi leggjum við til tryggingagjaldslaust ár fyrir minnstu fyrirtækin og snarpan afslátt fyrir þau meðalstóru. Það er aðgerð sem myndi skipta miklu máli í viðspyrnunni sem við trúum að verði í atvinnulífinu á árinu 2021. Við leggjum einnig til skref í átt að því að barnabætur verði raunverulega til þess að jafna stöðu barnafólks við hina sem ekki eru með börn á framfæri og það kemur í stað þeirrar tillögu sem meiri hlutinn er með um að barnabætur byrji að skerðast við lágmarkstekjutrygginguna. Við munum greiða atkvæði gegn breytingartillögu meiri hlutans um afslátt á viðmiðum um losun koltvísýrings við ákvörðun vörugjalda á bíla, enda er hún ekki í nokkru samræmi við loftslagsstefnu stjórnvalda.