151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

19. mál
[15:38]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Senn líður að jólum og hér erum við að greiða atkvæði um mál sem einhverra hluta vegna hefur reynst hv. stjórnarandstöðu mjög erfitt að sætta sig við og hefur hún gert allt sem hún getur til að koma í veg fyrir að það fari hér í gegn. Málið snýst einfaldlega um það að við erum að auka sveigjanleika í utanríkisþjónustunni. Við erum svo sannarlega að minnka völd ráðherra gríðarlega með þessari afgreiðslu. Þetta er í alla staði mjög gott mál og ánægjulegt að við séum að ljúka því nú. Ég vil þakka hv. þingmönnum sem hafa stutt þetta frumvarp kærlega fyrir stuðninginn og vinnuna og hv. utanríkismálanefnd fyrir vinnuna í þessu máli.