151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

sjúklingatrygging.

371. mál
[17:23]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég flyt hér nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúklingatryggingu. Aðdragandi þessa máls er, eins og hv. þingmenn þekkja, sú staða að við erum í miðjum heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar og fyrirséð að á næstu vikum og mánuðum muni verða aðgengi að bóluefni vegna Covid-19 sjúkdómsins. Þá er mikið hagsmunamál fyrir stjórnvöld og alla landsmenn að sem flestir láti bólusetja sig.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa ráðuneytisins, Guðbjörgu Benjamínsdóttur lögmann og Þórólf Guðnason sóttvarnalækni.

Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands og Sjúkratryggingum Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að við lög um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að gildissvið laganna verði rýmkað þannig að þau taki til þeirra sem gangist undir bólusetningu á Íslandi gegn Covid-19 sjúkdómnum á árunum 2021–2023 með bóluefni sem lagt er til af hálfu íslenskra heilbrigðisyfirvalda. Tekinn er af allur vafi um skaðabótaréttarlega stöðu þeirra sem kunna að verða fyrir líkamstjóni við eða í kjölfar slíkrar bólusetningar og réttur til skaðabóta rýmkaður umfram gildandi rétt, eftir atvikum til ársins 2033 með vísan til fyrningar bótakrafna samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu, eins og nánar er fjallað um í greinargerð með frumvarpinu.

Ríkir almanna- og þjóðarhagsmunir mæla með víðtækri bólusetningu sem framkvæmd verði eins fljótt og kostur er í því skyni að stöðva útbreiðslu sjúkdómsins. Þar af leiðandi er brýnt að ryðja úr vegi sem flestum hindrunum fyrir almennri og skjótri bólusetningu. Frumvarp þetta er mikilvægt skref í átt að því markmiði með því að takmarka verulega fjárhagslega áhættu almennings af bólusetningu við sjúkdómnum, þótt einhverjar aukaverkanir kunni að koma fram.

Með vísan til umfjöllunar í greinargerð um samninga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við framleiðendur bóluefnis um afsal skaðabótaréttar framleiðenda, sem tekur til allra ríkja innan Evrópusambandsins og EFTA, er mikilvægt að tekið sé af skarið um hvar skaðabótaábyrgðin liggur. Þar sem um ræðir bóluefni sem íslenska ríkið mun afla og leggja til og þjóðhagslegir hagsmunir standa til þess að bólusetning verði almenn og gangi hratt fyrir sig er við það miðað að íslenska ríkið beri ábyrgð á því fjártjóni sem einstaklingar kunna að verða fyrir vegna eiginleika bóluefnis og rangrar meðhöndlunar þess samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu. Nefndin leggur áherslu á að bótaskylda ríkisins er óháð því hvar bólusetning fer fram innan heilbrigðisþjónustunnar.

Á fundum nefndarinnar og í umsögnum sem nefndinni bárust var almennt lýst yfir stuðningi við efni og tilgang frumvarpsins og hvatt til skjótrar samþykktar þess. Lögð var áhersla á að tilgangur frumvarpsins, að treysta stöðu þeirra sem kunna að verða fyrir líkamstjóni við eða í kjölfar bólusetningar, væri ein af forsendum fyrir almennri bólusetningu og markvissri stöðvun á útbreiðslu sjúkdómsins.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að vaxandi hópur fólks um allan heim kjósi að forðast ráðlagðar bólusetningar og taki ákvörðun um að láta hvorki bólusetja sig né börn sín vegna órökstudds ótta við bóluefni sem notuð hafa verið um áratugaskeið. Vegna mikilvægis almennra bólusetninga gegn sjúkdómum sem herjað hafa á mannkynið í aldanna rás væri tilefni til þess að ákvæðið yrði gert almennt gagnvart öllum ráðlögðum bólusetningum. Nefndin áréttar mikilvægi almennra bólusetninga og tekur undir mikilvægi þess að útrýma órökstuddum ótta við ráðlagðar bólusetningar.

Þá kom fram fyrir nefndinni að gildandi lög um sjúklingatryggingu næðu til atvika þar sem röng meðhöndlun bóluefnis af hálfu heilbrigðisstarfsmanns veldur bólusettum einstaklingi tjóni. Með frumvarpinu væri það ítrekað og skýrt. Sömuleiðis væri skýrt að ákvæði 4. töluliðar 1. mgr. 2. gr. laganna tæki til sjaldgæfra og alvarlegra fylgikvilla bólusetninga með vísan til umfjöllunar um ákvæðið og 1. gr. laganna í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um sjúklingatryggingu. Þar að auki bæri greinargerð þess frumvarps sem hér er til meðferðar það með sér að bótaskyldu væri ætlað að ná til tjóns yfir lágmarksbótafjárhæð vegna allra fylgikvilla bólusetninga gegn Covid-19 sjúkdómnum, ekki aðeins sjaldgæfra og alvarlegra fylgikvilla. Nefndin tekur undir framangreindan skilning á gildandi rétti og þeim réttaráhrifum sem bráðabirgðaákvæði frumvarpsins felur í sér. Þótt einhver tjónstilvik vegna bólusetningar kynnu að teljast bótaskyld samkvæmt gildandi rétti er tilgangur frumvarpsins einmitt sá að taka af allan vafa um skaðabótaréttarlega stöðu þeirra sem kunna að verða fyrir líkamstjóni við eða í kjölfar slíkrar bólusetningar.

Á það var bent að upp kynnu að koma tilvik þar sem tjónþoli fengi tjón sitt ekki bætt að fullu vegna bótahámarks 2. mgr. 5. gr. laga um sjúklingatryggingu. Hætta væri á að tjón ungra einstaklinga yrði að hluta óbætt. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er hámark bóta samkvæmt ákvæðinu 11.605.731 kr. miðað við 1. janúar 2020. Sú takmörkun á við um öll tjónsatvik samkvæmt lögunum nema samkvæmt 1. mgr. 4. gr. þeirra. Nefndin leggur áherslu á að í frumvarpinu felst mikil réttarbót og rýmkun skaðabótaréttar vegna bólusetningar við Covid-19 sjúkdómnum og eðlilegt að almennt bótahámark gildandi laga taki einnig til bótaréttar á grundvelli frumvarpsins. Þá skal á það bent að almennar skaðabótareglur gilda um bótakröfur vegna tjóns umfram bótahámark 2. mgr. 5. gr. laganna.

Nefndin tekur undir það sem fram hefur komið við meðferð málsins að með frumvarpinu sé stigið mikilvægt og nauðsynlegt skref í átt að því markmiði að tryggja almenna bólusetningu og hefta þannig útbreiðslu Covid-19 sjúkdómsins og takmarka það gríðarlega tjón sem yfirstandandi heimsfaraldur hefur haft í för með sér fyrir íslenskt samfélag. Lögð er áhersla á að stjórnvöld kynni fyrir almenningi hvert eigi að leita til þess að tilkynna um aukaverkanir sem einstaklingar kunna að verða fyrir í kjölfar bólusetningar.

Fyrir nefndinni kom fram að ekki væri hægt að útiloka að bólusetningar gætu hafist fyrir áramótin, þó að ólíklegt væri. Leggur nefndin því til að frumvarpið nái til þeirra sem gangast undir bólusetningu á Íslandi gegn Covid-19 sjúkdómnum á árunum 2020–2023, þó að raunar sé ekki mikið eftir af árinu 2020.

Að því sögðu skal áréttað að nefndin er einhuga um mikilvægi þess að frumvarpið nái fram að ganga og leggur til að það verði samþykkt með breytingu sem ég hef áður reifað.

Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu. Undir álitið skrifa hv. þingmenn Helga Vala Helgadóttir formaður, Ólafur Þór Gunnarsson framsögumaður, Anna Kolbrún Árnadóttir, Ásmundur Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sara Elísa Þórðardóttir og Vilhjálmur Árnason.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þessu máli. Það er gleðiefni að á sama degi og mælt er fyrir nefndaráliti í þessu máli, og það verður vonandi samþykkt á allra næstu dögum, berist góðar fréttir utan úr heimi, frá Evrópu, um að Lyfjastofnun Evrópu ætli að afgreiða umsókn um bóluefni frá Pfizer BioNTech 21. desember, þ.e. einum átta dögum fyrr en upphaflega hafði verið áætlað. Það kann þá að leiða til þess að sú breyting sem við gerum verði virkari. Við getum vonað það. En við sjáum það úti í heimi og hér á Íslandi að sú vonarglæta sem smátt og smátt hefur verið að færast upp á sjóndeildarhringinn, í kjölfar þess að bóluefni hafa verið þróuð og eru núna í umsóknarferli, og sum raunar þegar samþykkt í sumum löndum, er býsna mikilvæg núna í svartasta skammdeginu. Þess vegna er sérstakt ánægjuefni, herra forseti, að geta mælt fyrir þessu frumvarpi nú og vona að með því tryggjum við að bólusetning við Covid-19 sjúkdómnum geti hafist um leið og bóluefni verður tilbúið og að hún verði almenn og hjálpi okkur sem samfélagi að komast í gegnum þennan faraldur skaðlaust og fyrr en ella.