151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

sjúklingatrygging.

371. mál
[17:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég styð heils hugar þetta frumvarp um breytingu á lögum um sjúklingatryggingu, um bótarétt vegna bólusetningar. Ég kem bara hingað upp í þeim tilgangi að benda á þá einu hnökra sem ég sé á þessu frumvarpi. Það er þessi lága upphæð, skaðabótaupphæð, 11.605.731 kr., sem er ekki há tala miðað við það að einhver verði fyrir 75–100% örorku. Það kom fram í umfjöllun nefndarinnar að ef viðkomandi er kominn í það mikla örorku fer hann auðvitað á örorkubætur en við vitum að lægstu örorkubætur eru eiginlega ávísun á algjöra fátækt. Ef við tökum þessa upphæð þá er hún ekkert gífurlega há. Ég held að það segi okkur líka, þó að það komi aðrir bætur til, að almennt þurfum við hér á þinginu að taka til endurskoðunar fjárhæðir allra skaðabóta vegna þess að þær hafa ekki verið uppfærðar rétt, sérstaklega í skaðabótalögum. Það er löngu tímabært að uppfæra allar tölur miðað við rauntíma, tíma dagsins í dag, þannig að þær skili virkilega því sem þær eiga að gera og að sá sem lendir í óhappi sé öruggur með það — við vonum að það verði enginn, það væri óskandi, en ef svo illa vildi til þá er hann a.m.k. það vel staddur að hann ætti ekki að þurfa að lifa í fátækt það sem eftir er.

Ég styð þetta heils hugar vegna þess að þetta er framsýnt mál, við erum að klára þetta áður en bólusetning hefst. Þetta var einróma samþykkt í nefndinni og allir sammála og þetta er bara frábært mál. En eins og ég segi, það eru aðallega tölurnar, þær þyrfti að endurskoða, en annars er þetta bara hið besta mál.