151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

nauðungarsala.

270. mál
[19:02]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mikilvægt mál sem gengur út á það að stíga skref í átt að því að tryggja að þessi kreppa verði ekki þess valdandi að fólk missi heimili sín, svo einfalt er það. Þetta nær ekki utan um alla sem eiga á hættu að missa heimili sín en þetta nær utan um hóp af fólki sem við svo sannarlega viljum ekki að missi heimili sín út af heimsfaraldri kórónuveirunnar og þeirri efnahagskreppu sem henni fylgir.

Ég verð að segja að ég undrast að ríkisstjórnin hafi ekki sjálf stigið þetta skref — eða undrast, mér þykir það a.m.k. miður, vegna þess að þá væri þetta bara frágengið því að meiri hluti er fyrir því á þingi. Ég hlýt því að hvetja meiri hluta þessa þings til að vinna málið hratt og vel og samþykkja það vegna þess að við hljótum að vera sammála um að við viljum ekki að fólk missi heimili sín vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og þeirrar efnahagskreppu sem henni fylgir. Þarna erum við að veita fólki frest til að greiða úr sínum málum til að halda heimili sínu, vera í skjóli og vari á meðan þetta ástand ríkir. Þetta er sjálfsagt mál, þetta er mikilvægt mál og ég vona að það verði afgreitt hratt og vel heimilum landsins til hagsbóta.