151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

271. mál
[20:13]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Já, það er áreiðanlega hægt að breyta þessu á þann veg að við séum ekki svona rosalega stíf á gormunum í þessu eins og er í gildandi lögum. Ég er algerlega sammála þingmanninum um það. Vangaveltur mínar snúa meira að því hvort það ætti þá að skrifa það aðeins ítarlegar í lagatextann eða kannski kemur það bara í nefndarálitinu eða eitthvað slíkt, ég þori ekki að fullyrða um það.

Annað sem ég velti fyrir mér er, þingmaðurinn kom raunar aðeins inn á það, hvar maður getur leyft að dreifa ösku. Eigum við að vera með alveg sömu reglu t.d. í þéttbýli og dreifbýli? Væru einkalóðir alltaf stikkfrí og væri einkaland alltaf stikkfrí nema með leyfi viðkomandi landeiganda? Og svo er það skráningin sem þingmaðurinn kom aðeins inn á, eigum við að segja að það sé í sjálfu sér kannski pínulítið persónulegra að einhver vilji láta dreifa sér í Varmá, eins og þingmaðurinn komst að orði áðan, en ef viðkomandi vill bara eiga fastan legstað einhvers staðar í einhverjum kirkjugarði? Það þarf að skoða persónuverndarvinkilinn á þessu, af því að nú vitum við að persónuverndarlögin ná í rauninni út yfir gröf og dauða, og hvort þarf að skoða eitthvað sérstaklega. Mig langar að vita hvort þingmaðurinn hefur velt því eitthvað fyrir sér af því að þetta eru eðlilega mjög persónuleg mál.

Ég er sammála þingmanninum um að það er fullt efni til að rýmka löggjöfina og ég hlakka til að sjá afurðina sem kemur frá nefndinni.