151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

stjórnsýsla jafnréttismála.

15. mál
[16:04]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Ég ætla ekki að tjá mig um málið í heild. Þar er sama afstaða og varðandi fyrra málið, við segjum já við þessu máli, að hér hafi nokkuð vel til tekist. Ég vildi engu að síður flagga einni breytingu sem hér er að verða sem lýtur að málsmeðferð kærumála. Í þeim tilvikum þar sem menn ætla ekki að una niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála hefur því hér verið bætt við að kærunefndinni verði stefnt samhliða. Það er dálítið eins og taka dómarann úr neðra stigi með inn í dómsal á efra stigi, ekki lógísk breyting en svona áferðarfallegra þegar ríkisstjórnin fer í mál gegn einstaklingum. Ég hef áhyggjur af því að það muni ekki mýkja málsmeðferðina. Upplifun einstaklingsins verður hin sama þegar ríkisstjórnin dregur hann fyrir dóm. En þetta gæti orðið til þess að dómsmálum á borð við þetta, og við vitum öll hvaða mál er um að ræða, muni fjölga. Það er áhyggjuefni.