151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[11:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hvað sem hver segir er leið Sjálfstæðisflokksins í miðri kreppu að koma á höftum. Við skulum hafa það á hreinu. Það er leið Sjálfstæðisflokksins í þessu máli. Ég tek það með eftir þessa umræðu, og tek undir með hv. þm. Haraldi Benediktssyni, að við eigum að nýta þann samhljóm sem er hér í salnum til þess að styðja við íslenskan landbúnað. Það verður ekki gert í gegnum höft og aukna tollvernd, gegn m.a. eindregnum ábendingum ASÍ, af því að samtökin hafa áhyggjur m.a. af heimilum í landinu, af neytendum sem verða að vera hafðir með í öllu sem viðkemur landbúnaði.

Ég hef líka áhyggjur af versnandi samningsstöðu bænda gagnvart afurðastöðvum. Hún hefur komið ítrekað fram í umfjöllun nefndarinnar. Hér er algjört metnaðarleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar kemur að því. Það er ekki verið að taka á því. Við þurfum að styrkja samningsstöðu bænda og áhrifamátt þeirra þegar þeir eiga í samtali við afurðastöðvarnar. (Forseti hringir.) Þetta eru okkar sameiginlegu verkefni og við skulum taka það út úr þessari umræðu að styðja og styrkja við íslenskan landbúnað. (Forseti hringir.) En það verður ekki gert í gegnum höft.